Feigðarflan smábyggðastefnu.

Greinar

“En hvers vegna hefur verið keyptur floti umfram þarfir síðustu árin? Vegna byggðastefnunnar mundu margir segja. En það er ekki rétt. Hér hefur verið tekin upp smábyggðastefna á kostnað eiginlegrar byggðastefnu … “

Svo segir í nýlega birtri kjallaragrein eftir Valdimar Kristinsson viðskiptafræðing. Hann rökstyður þar, að núverandi smábyggðastefna sé enn hættulegri fólki úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Hann nefnir dæmi:

“Í Norðurlandskjördæmi eystra eru þrír bæir stærstir, Akureyri, Húsavík og Dalvík með samtals 67% af íbúum kjördæmisins. Þessum stöðum og íbúum þeirra er vissulega enginn greiði gerður með því að grafið sé undan útgerðargrundvelli þeirra með Þórshafnartogara … “

“ … Patreksfjörður, Bolungarvík og Ísafjörður með samtals 54% íbúa Vestfjarðakjördæmis. Þessum stöðum og íbúum þeirra er sannarlega enginn greiði gerður með því að grafið sé undan útgerðargrundvelli þeirra með Hólmavíkurtogara … “

Svipaða sögu mætti segja úr öðrum kjördæmum. Ráðamenn hafa næma heyrn fyrir kveinstöfum fámennra þrýstihópa, án þess að geta eða vilja gera sér grein fyrir, að greiðasemin er andstæð hagsmunum meirihluta fólks í þeirra eigin kjördæmum.

Ekki má heldur gleyma hagsmunum þjóðarinnar í heild, “ … sem verið er að sliga, því steyti skúta hennar á skuldaskerinu, verður öll íslenzk þjóðarbyggð í hættu”, segir Valdimar.

Skynsamur herforingi dreifir ekki liði sínu jafnt á öll landamærin. Hann safnar því saman á hernaðarlega mikilvægustu staðina, svo að eitthvert gagn sé í því, þegar til átaka kemur. Á svipaðan hátt ættu íslenzkir ráðamenn að hugsa.

Sjálfstæði þjóðarinnar er í meiri hættu en svo, að varnir gegn fólksflótta eigi við í hverjum einasta hreppi landsins. Slík dreifing á kröftum getur hæglega leitt til þjóðargjaldþrots og fólksflótta frá landinu.

Hornsteinar sjálfstæðis þjóðarinnar eru efnahagslegur máttur Reykjavíkursvæðisins annars vegar og traustar byggðir sjávarsíðunnar hins vegar. Ef undan þessu tvennu er grafið, fellur heildin.

Smábyggðir eiga fyllsta rétt á sér, ef unnt er að halda þar uppi öflugu atvinnulífi, án þess að æpt sé á meiri fyrirgreiðslur en almennt gerast í atvinnulífi landsins. Að öðrum kosti eru þær þjóðinni skaðlegar.

Óskynsamlegt er að veita stríðum straumum fjármagns frá Reykjavíkursvæðinu og öflugum þéttbýlisstöðum utan þess, einmitt frá stöðunum, þar sem unnt er að halda uppi vörnum fyrir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Tvennt er verst í feigðarflaninu. Annað er að útvega smábyggðunum togara, sem minnka hlut lífvænlegra byggða af takmörkuðum heildarafla úr sjó. Á slíku tapa allir, að lokum einnig smábyggðirnar, sem lenda í skuldasúpu og gjaldþrotum.

Hitt er stuðningur við sauðfjárrækt og mjólkurbúskap í hvaða mynd sem er. Útflutningsuppbætur, niðurgreiðslur, ótal aðrir styrkir, og vildarlán til hins hefðbundna landbúnaðar er brennsla á verðmætum, sem nýta mætti annars staðar.

Við erum komnir upp fyrir Dani í söfnun erlendra skulda. Við ætlum börnum okkar að endurgreiða þær. Til þess að gera þeim það kleift verðum við að hverfa frá feigðarflani smábyggðastefnunnar, hætta að kasta peningum á glæ.

Jónas Kristjánsson.

DV