Búinn með sjö af átján sögum Ian Rankin. Hinn skozki Rebus orðinn þreytandi. Mér leiðast svona norrænar rannsóknarlöggur, feitar og fráskildar, skítugar og drykkfelldar. Jafnvel étandi svið af plastdiskum frá Umferðarmiðstöðinni. Heillast þó af lýsingum á götum og húsum og andrúmslofti í Edinborg. Betri eru þó þessir ítölsku. Fjórtán bækur um Montalbano á Sikiley, sem hugsar um fátt annað en mat. Enn betri eru sautján bækur um Brunetti í Feneyjum, enda hvorki fráskilinn né drykkfelldur og dýrkar fimm stjörnu mat. Lýsingar á stöðum og andrúmslofti á Sikiley og í Feneyjum eru frábærar í þessum bókum.