Félag stjórnar ríkinu.

Greinar

Búnaðarfélag Íslands hefur vaxið Stjórnarráði Íslands yfir höfuð á flestum sviðum landbúnaðarmála að mati Páls Líndal lögfræðings. Hann hefur að ósk Alberts Guðmundssonar fjármálaráðherra tekið saman skýrslu um greiðsluskyldur ríkisins eftir lögum um landbúnað.

Skýrsla Páls er mjög ítarleg og nær allt frá átjándu öld til allra síðustu ára. Þetta er fyrsta skrefið og stærsta í fyrirhugaðri úttekt á, hvernig fjárlög ríkisins þenjast út á sjálfvirkan hátt í kjölfar laga, sem sífellt leggja nýjar skyldur á herðar skattgreiðenda.

Í niðurstöðum rannsóknar Páls segir m.a. ; “Að forminu til fer landbúnaðarráðuneytið með yfirstjórn landbúnaðarmála, en þegar farið er að athuga löggjöfina nánar, kemur í ljós, að í raun er þetta á allt annan veg. Ákvörðunarmöguleikarnir og ákvörðunarvaldið eru í raun að mjög verulegu leyti hjá Búnaðarfélagi Íslands. Það hefur, ef svo má segja, vaxið Stjórnarráðinu yfir höfuð á flestum sviðum landbúnaðarmála.

Félagið hefur ekki tekjur til starfsemi sinnar utan það fé, sem það fær úr ríkissjóði, ýmist samkvæmt beinum ákvæðum laga eða árlegum fjárveitingum á fjárlögum. Þótt svona sé skipað málum, á ríkisvaldið engan íhlutunarrétt um stjórn félagsins eða starfshætti. Hefur það komið fram oftar en einu sinni hér að framan.

Félagið fer með beina stjórn á vissum þáttum ríkisvaldsins, það markar opinbera stefnu á vissum sviðum, stjórnar raunverulegum ríkisframkvæmdum, annast fjársýslu fyrir ríkið og svo framvegis. Það hefur á að skipa allfjölmennu starfsliði, sem ráðið er af stjórn félagsins og nýtur réttinda ríkisstarfsmanna, án þess að ríkisvaldið hafi nokkuð um þessi mál að segja.

Og sem dæmi um það, hvernig málum er skipað, er það, að reikningar félagsins ganga ekki til ríkisendurskoðunar.”

Um þetta ástand segir Páll, að það “virðist hálfkyndugt frá lögfræðilegu sjónarmiði, að félagsskapur með sjálfvirku stjórnkerfi fari með ákveðinn þátt ríkisvaldsins”.

Páll telur, að gildandi skipan landbúnaðarmála sé “beint afkvæmi hagfræðikenninga, sem voru ofarlega á baugi í Evrópu um og eftir miðja 18. öld”. Þá voru uppi svokallaðir fysiokratar eða búauðgismenn, sem töldu landbúnað vera undirstöðu annarra atvinnugreina.

Þessar kenningar höfðu veruleg áhrif í Danmörku og bárust þaðan til Íslands rétt fyrir móðuharðindi. Og Páll segir: “Þegar litið er á þróun landbúnaðarmála hér á landi, verður ekki annað sagt, en stefna sú, sem fylgt er nú, sé í mörgum atriðum hin sama og fest var í lögum á tímabilinu 1772-1783.”

Þá segir Páll: “Hlýtur það að vera íhugunarefni hvort kenningar fysiokrata eins og þær voru útfærðar í lögum af dönsku stjórninni seint á 18. öld eigi við öllu lengur.”

Athyglisvert er, að af mörgum tugum laga um landbúnað er það tiltölulega nýleg syrpa laga frá 1971-1973 sem er einna dýrust og felur í sér einna mest valdaafsal. Það eru lögin um jarðrækt, búfjárrækt og stofnlánadeild landbúnaðarins. Og loks eru nýjustu lögin um hið illræmda Framleiðsluráð landbúnaðarins frá 1981.

Krabbamein hins hefðbundna landbúnaðar er grunnmúrað í lagabókstafnum. Þetta krabbamein hefur breiðzt út á síðustu árum, þrátt fyrir andóf. En með skýrslu Páls er fengin handhæg skrá yfir lagagreinar, sem afnema þarf til að létta óbærilegri byrði af skattgreiðendum.

Jónas Kristjánsson.

DV