Félag verður sjóður

Greinar

Þróunarfélagið hefur færzt nær uppruna sínum. Það verður opinber sjóður, arftaki Framkvæmdastofnunarinnar, svo sem Framsóknarflokkurinn alltaf vildi, þótt hann sætti sig um tíma með semingi við hlutafélagsformið. Ein fyrirgreiðslustofnun kemur í stað annarrar.

Þróunarfélagið hefur fengið framkvæmdastjóra forvera síns, framsóknarmann, sem hefur öðlast reynslu í fyrirgreiðslunni, sem jafnan hefur einkennt Framkvæmdastofnunina og gert hana svo óvinsæla, að nafnaskipti voru nauðsynleg. En sama stefnan heldur áfram.

Stjórnarformaðurinn og stjórnarmaðurinn, sem sögðu upp, hafa verið sakaðir um sýndarmennsku. Sá fótur er fyrir gagnrýninni, að þeir eru báðir hálfgildings stjórnmálamenn, ­hafa starfað innan Sjálfstæðisflokksins og voru á hans vegum í stjórn Þróunarfélagsins.

Sú stjórn var mynduð í samræmi við helmingaskiptaregluna, sem jafnan hefur einkennt samstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Forsætisráðherra taldi rétt, að flokkur sinn fengi framkvæmdastjórann, úr því að hinn fékk formanninn og þrjá af fimm stjórnarmönnum.

Engum virðist hafa dottið í hug, að stjórn félagsins skyldi skipuð mönnum , sem ekki væru þar á vegum sérstakra stjórnmálaflokka. Þess vegna er tæpast fréttnæmt, þótt Framsóknarflokkurinn vilji hugsa helmingaskiptaregluna til enda, ­til rökréttrar niðurstöðu.

Forsætisráðherra hefur líka bent á, að mestallt hlutaféð komi frá ríkinu, stofnunum þess og sjóðum. Samkvæmt siðalögmáli hans er sjálfgefið, að stjórnmálamenn fari með umboð fyrir slíkt fé. Það siðalögmál hefur raunar ríkt hér svo lengi sem elztu menn muna.

Einhvern tíma verður að rjúfa hefð siðalögmáls forsætisráðherra. Einhvern tíma verðum við að losna við hugarfarið að baki Framkvæmdastofnun. Einhvern tíma verða stjórnmálaflokkkar framkvæmda- og löggjafarvaldsins að sleppa dauðahaldinu á peningavaldinu.

Fagna ber og ekki lasta, ef pólitískt kosnir fulltrúar í Þróunarfélaginu verða fyrstir til að rjúfa hefðina og heimta ópólitíska framkvæmdastjórn í því félagi. Einhvers staðar verður að byrja á að hleypa út skítalyktinni, sem fylgir stjórnmálaflokkunum í atvinnulífinu.

Athyglisvert er, að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins klofna í máli þessu. Annars vegar eru uppreisnarmenn frá fyrirtækjum, sem standa vel. Hins vegar stendur með Framsóknarflokknum pilsfaldakapítalisti, sem varð í fyrra að segja fyrirtæki sitt til sveitar.

Þessi klofningur endurspeglar Sjálfstæðisflokkinn. Þar er mikið af fólki, sem lifir á fyrirgreiðslukerfi hins opinbera og vill halda áfram að hanga í pilsfaldinum, meðan aðrir vilja koma upp heilbrigðu fjármálakerfi í líkingu við það, sem tíðkast í öðrum löndum.

Í þessari atrennu tókst ekki að rjúfa hin spilltu tengsl stjórnmála og fjármála. Þróunarfélagið hefur verið eyðilagt sem framfaraafl í þjóðfélaginu, svo sem Framkvæmdastofnunarsinnar beggja flokka vildu.

Tilraunin var samt ekki gagnslaus, því að hún beindi kastljósi að vandanum. Einhvern tíma skal siðalögmál forsætisráðherra víkja. Það varð ekki í þetta sinn og verður ef til vill ekki í hið næsta. En stefnan er í átt til heilbrigðari tíma, ­sjálfstæðs atvinnulífs.

Fyrirgreiðslustefnan mun víkja í fyllingu tímans, þegar skorið verður á fjármálatengsl stjórnmála og atvinnulífs, svo sem gerzt hefur í öðrum löndum.

Jónas Kristjánsson

DV