Félagsmálastofnun í útgerð.

Greinar

Ofskipulag leiðir yfirleitt til þverstæðna, vegna þess að skipuleggjendur geta aldrei gert sér fyrirfram grein fyrir hliðarverkunum skipulagsins. Lausn á einu vandamáli býr til ný vandamál á öðrum sviðum, oft hrikalegri vandamál.

Landbúnaðurinn er dæmi um fyrrverandi atvinnuveg, sem hefur verið skipulagður að ofan og breytt í félagsmálastofnun, sem kostar ríkissjóð næstum tíundu hverja krónu á fjárlögum. Og nú er sjávarútvegurinn kominn í sömu hættu.

Að undanförnu hefur verið haldið fram í fjölmiðlum, að vandi útgerðarinnar yrði ekki leystur með hækkun fiskverðs. Hver er skýringin á, að atvinnuvegur hagnast ekki á að fá hærra verð fyrir afurðir sínar? Í ljós kemur, að 80% útgerðarinnar eru í eigu fiskvinnslunnar í landinu.

Í flestum tilvikum er því aðeins bókhaldsatriði, á hvaða verði fiskvinnslan kaupir fiskinn af útgerðinni. Peningarnir fara ekki langt í burtu.

Sjómenn fá hluta aflaverðmætis í eigin vasa. Þess vegna hefur verið búið til kerfi til að bæta hag útgerðarinnar framhjá hlutaskiptum. Þeir peningar haldast alveg innan fyrirtækjanna og ekkert af þeim lekur til sjómanna.

Þess vegna vill útgerðin núna ekki endilega, að fiskverð hækki svo mjög, heldur fari ríkið að styrkja hana með einhverjum hætti og hafi forgöngu um, að strikað verði yfir vanskil hinna helstu grínista í greininni.

Að undanförnu hefur einnig verið haldið fram í fjölmiðlum, að vandi útgerðarinnar yrði ekki leystur með lægra gengi krónunnar. Hver er skýringin á, að atvinnuvegur hagnast ekki á að fá hærra innlent verð fyrir afurðir sínar?

Í ljós kemur, að flest nýjustu skipin nota svo mikla olíu og skulda svo mikið í gengistryggðum lánum, að jafnþungt er á metunum og sjálft aflaverðmæti þeirra. Útgerð þeirra er svo glórulaus, að dæmið bítur í skott á sjálfu sér.

Þetta gildir aðeins um hluta flotans, til dæmis skipin, er skulda meira en sem nemur tryggingaverði þeirra sjálfra. En þessi útgerð virðist ráða ferðinni, þegar efast er um, að lægra gengi flytji fé til sjávarútvegs.

Að undanförnu hefur komið fram í fjölmiðlum, að um 150 ástralskar stúlkur hafa verið ráðnar til fiskvinnslu, þótt meira en 3.000 manns séu á atvinnuleysisskrá. Erlenda farandverkafólkið er eins fjölmennt og á fyrri árum.

Í ljós kemur, að í sumum plássum hefur verið offjárfest svo mjög í sjávarútvegi, að heimafólk ræður ekki við aflamagnið. Á sama tíma er atvinnuleysi á öðrum stöðum, af því að takmarkaður afli dreifist á of mörg fiskiskip.

Með nýju fiskiskipunum hefur dregið úr aflanum, sem er til skiptanna milli skipanna, sem fyrir eru. Með sjálfvirku lánakerfi og góðu sambandi við lina sjávarútvegsráðherra hafa sum sjávarpláss tekið til sín afla frá öðrum plássum.

Þetta hefði ekki komið svo mjög að sök á fyrri árum, þegar Íslendingar létu sér ekki bregða við að flytjast búferlum milli byggðarlaga og landshluta. Nú eru menn smám saman að glata sveigjanleikanum og farnir að kalla hann röskun.

Þverstæðurnar í sjávarútvegi, sem hér hefur verið bent á, sýna, að hætta er á, að hann verði ofskipulagður yfir í félagsmálastofnun eins og landbúnaður. Þegar formaður Sjálfstæðisflokksins mælir í áramótagrein með útgerðarskatti á þjóðina er fokið í flest skjól.

Jónas Kristjánsson.

DV