Ef Félag íslenzkra bifreiðaeigenda býður út ökutryggingar þeirra, sem þess óska, er hægt að fá erlend tryggingafélög til að bjóða kjör, sem lækka iðgjöld skyldutrygginga um mörg þúsund krónur á hvern bíl á ári. Um þetta þarf samtök, eins og um önnur hagsmunamál fólks.
Ekki þýðir að kvarta yfir því, að íslenzku tryggingafélögin safni digrum tjónasjóðum og hafi iðgjöld skyldutrygginga í því skyni tuttugu eða þrjátíu þúsund krónum hærri á ári en gengur og gerist í nágrannalöndunum, þar sem tjón eru ekki fleiri, stærri eða dýrari en hér.
Íslenzku tryggingafélögin eru ekki að gera annað en að gæta hagsmuna sinna. Þau eru fá og hafa samráð sín í milli um að bæta hag sinn á kostnað viðskiptamanna, sem eru margir og dreifðir. Koma Skandia inn í þessa fáokun hefur ekki aukið samkeppnina neitt að ráði.
Sundraðir eru ökumenn máttlitlir. Sameinaðir geta margir ökumenn hins vegar lagt fram viðskiptapakka, sem freistar erlendra tryggingafélaga. Það er verðugt verkefni fyrir Félag íslenzkra bifreiðaeigenda að rjúfa fáokun tryggingafélaganna með útboði á bílatryggingum.
Ekki skiptir minna máli, að félagið aðstoði við að auka samkeppni í benzínverði með því að stuðla að tilkomu fleiri seljenda. Við sjáum, að ótti olíufélaganna við ókomið Irving Oil hefur þegar leitt til þess, að fólk getur fengið ódýrara benzín með því dæla sjálft á bílinn.
Olíufélögin eru enn færri en tryggingafélögin og fáokun þeirra magnaðri. Óvíst er, að eitt nýtt olíufélag til viðbótar við þau tvö eða þrjú, sem fyrir eru, hafi miklu betri áhrif en fjölgun tryggingafélaga um eitt erlent félag. En lítil fjölgun er þó betri en alls engin fjölgun.
Fáokun íslenzkra banka hefur svipuð áhrif og fáokun olíu- og tryggingafélaga. Bankarnir hafa stundað fáránlegar lánveitingar, sumpart pólitískar, og komast upp með að láta heiðarlega viðskiptavini sína greiða sér milljarða á hverju ári upp í tapið af óráðsíu bankastjóra.
Því miður eru engin samtök á sviði viðskiptamanna bankanna. Það er hins vegar verðugt verkefni fyrir samtök fyrirtækja á ýmsum sviðum að leita erlendra tilboða í bankaviðskipti sín. Við verðum að fá hingað banka, sem ekki bera fortíðarbyrðar af völdum óhæfra bankastjóra.
Ekkert fæst með því að kvarta og kveina. Slíkt hljómar sem flugusuð í eyrum fáokunarstofnana. Fólk og fyrirtæki þurfa að bindast samtökum um að gæta hagsmuna sinna, svo að mark sé tekið á þeim. Þetta gildir líka um sveitarfélög, sem reyna að gæta hagsmuna íbúanna.
Þetta gildir um alla fáokun og einokun á Íslandi. Hér hefur verið fjallað um benzín, bílatryggingar og bankaþjónustu, en hefði eins verið hægt að fjalla um flug, póst eða síma. Hinir undirokuðu þurfa að taka saman höndum um að freista erlendra fyrirtækja til að starfa hér.
Þegar fólk og fyrirtæki hafa safnað hagsmunum hinna smáu á afmörkuðum sviðum í öflug samtök, er eðlilegt framhald, að slagkrafturinn verði notaður til að beita pólitískum þrýstingi gegn óeðlilegum áhrifum fáokunar- og einokunarstofnana á stefnu pólitískra laxveiðivina.
Vonandi tekst Félagi íslenzkra bifreiðaeigenda að ná viðskiptalegri og pólitískri stöðu til að berja á þeim, sem sitja yfir hlut bíleigenda. Það mundi hvetja til hliðstæðra aðgerða þolenda á öðrum sviðum. Okkur skortir til dæmis vígreif baráttusamtök neytenda landbúnaðarafurða.
Fáokunarstofnanir óttast að missa viðskipti og stjórnmálamenn óttast að missa atkvæði. Hinir smáu verða að standa saman um að rækta þennan mikilvæga ótta.
Jónas Kristjánsson
DV