Feneyjar

Veitingar

Kolkrabbinn og kóngulóin

Þetta var í hádeginu, ég hafði verið með fyrirlestur á ráðstefnu á Cini úti á eyju heilags Georgs daginn áður, hafði skemmt mér með nokkrum félögum um nóttina og var ekki fyllilega góður í maganum. Ég var í fyrsta skipti á veitingastaðnum Antica Besetta í Feneyjum hjá Volpe-hjónunum.

Þar var enginn matseðill, heldur fékk maður bara það, sem var á boðstólum þann daginn. Fyrir mig var lagður diskur með heilum kolkrabba, þar sem armarnir láku út af brúnunum. Milli þeirra var góðgæti úr skeljum. En kolkrabbinn horfði á mig. Allt fór af stað í maganum og í fyrsta skipti á ævinni gat ég ekki borðað matinn minn. Eftir að hafa nagað tvo arma kolkrabbans flúði ég af hólmi.

Gott sjávarfang er á veitingahúsum Feneyja. Þegar við erum komin um 100 metra frá ferðamannaásnum milli Rialto-brúar og Markúsartorgs, er fullt af földum og góðum veitingahúsum sjávarfangs, þar sem verðið er ekki uppsprengt, þar sem gestir eru heimamenn og þar sem ferðamenn eru fáir.

Það gildir um Corte Sconta eins og Antica Besetta, að næstum ómögulegt er að finna veitingastaðinn í nafnlausu húsasundi. Það þarf nánast að leiða mann inn fyrir dyr til að finna staðinn. Þar var líka enginn matseðill, heldur borðaði sérhver það, sem fyrir hann var lagt.

Á þarnæsta borði í þriggja metra fjarlægð sátu tveir feneyskir kaupmenn með stresstöskur undir borði. Þeir sátu með stórt fat á milli sín, fullt af svörtum risakóngulóm og tróðu þeim upp í sig með lúkunum, svo að armarnir stóðu út um munnvikin. Maginn var í góðu ásigkomulagi, en samt varð mér ekki um sel, gerði mér upp veikindi og vék í skyndingu af staðnum með skottið milli fótanna.

Í samræðum við hótelfólk og skoðun matreiðslubóka um kvöldið kom í ljós, að kaupmennirnir höfðu verið að borða Granceola. Það er ekki kónguló, heldur krabbi, sem fer úr skelinni upp úr áramótum og er þá veiddur, áður en hann hann fær nýja skel. Þetta þykir hinn mesti herramannsmatur, þótt hann liti ekki girnilega út í þriggja metra.

Síðar lærði ég að meta Antica Besetta og Corte Sconta og raunar tugi annarra fiskréttastaða í Feneyjum, þar sem ferskt sjávarfang kemur á land á Pescheria markaðinum við Rialto-brú á hverri nóttu.(Antica Besetta, Calle Savio, San Polo 1395. Corte Sconta, Calle del Pestrin, Castello 3886)

Jónas Kristjánsson

DV