Feneyjar gisting

Ferðir

Hótel í Feneyjum eru yfirleitt hrein og vel við haldið, þar á meðal pípulagnir, ef þau hafa þrjár stjörnur eða fleiri. En tveggja stjörnu hótel geta líka verið mjög góð, þótt þau hafi ef til vill ekki sjónvarpstæki á herbergjum. Einka baðherbergi er talið sjálfsagt. Sum hótel hafa verið innréttuð í frægum höllum, sem eru enn innréttaðar í gömlum stíl.

Dýrara er að gista í Feneyjum en annars staðar á Ítalíu. Þú getur þess vegna gist uppi í landi og farið á morgnana með lest eða bíl í bæinn, en það kostar auðvitað bæði tíma og peninga.

Morgunverður á ítölskum hótelum er yfirleitt nauðaómerkilegur, svipað og á frönskum hótelum. Betra er að fá sér ferskt pressaðan safa, nýbakað brauð og kaffi úti á horni.

Agli Alboretti

(Rio Terra Sant’Agnese, Dorsoduro 884. Sími: 523 0058. Fax: 521 0158. Verð: L.182000 (7698 kr) með morgunverði. Öll helztu greiðslukort. 20 herbergi. B2)

Skemmtilegt, lítið hótel í gömlu og brakandi húsi við hlið aðalsafnsins í Feneyjum, Accademia. Frá bátastöðinni framan við safnið er farið hliðargötuna vinstra megin við það. Hótelið er við þá götu, um 100 metra frá stöðinni.

Gestamóttaka er lítil og skemmtilega gamaldags og lyfta er ekki í húsinu. Herbergin snúa ýmist að fremur breiðri götunni milli hótels og Accademia eða að óvenjulega stórum bakgarði.

Herbergi 3 er fremur lítið og einfalt, með glugga út að garði, afar hreinlegt og milt í litum, með síma og hárþurrku, en engu sjónvarpi. Húsbúnaður er gamaldags, nánast forn. Baðherbergið er með minnsta móti, en vel búið og fullflísað. Sturtan tekur þriðjung af plássinu.

Danieli

(Riva degli Schiavoni, Castello 4196. Sími: 522 6480. Fax: 520 0208. Verð: L.770000 (32569 kr) með morgunverði. Öll helztu greiðslukort. 221 herbergi. C2)

Frábært glæsihótel í fagurri, gotneskri miðaldahöll á breiðbakkanum við lónið, nánast við hlið hertogahallarinnar, fyrrum heimkynni Dandolo-ættar. Hótelið er í þremur samhliða höllum og hægt er að gista þar fyrir tvo þriðju hluta verðsins, sem hér er gefið upp, en beztu hertogaherbergin í elztu höllinni eru þau, sem fólk sækist eftir, ef það gistir á stað sem þessum.

Opinberir salir hótelsins eru með því glæsilegasta sem sést, allt lagt marmara og dýrasta viði. Þrjár hæðir eru til lofts í móttökunni og tvær í víðáttumikilli setustofu til hliðar. Þjónar eru misjafnir, sumir eru góðir, en aðrir þyrftu að komast niður á jörðina. Lifandi tónlist er í setustofunni á brezkum tedrykkjutíma og síðan tónlist með söng á kvöldin.

Herbergi 33 er frábært, stórt og ríkmannlegt, með glugga út að lóninu, klaustureyjunni San Giorgio Maggiore og iðandi mannlífi bakkans. Það er í mildum, grænum litum í mjúkum veggdúk, gluggatjöldum, rúmábreiðum og vínskáp. Vandað parkett er á brakandi gólfi. Baðherbergið er sérstaklega glæsilegt, lagt fegursta marmara og einstaklega vel búið, þar á meðal baðsloppum.

Do Pozzi

(Calle larga 22. Marzo, San Marco 2373. Sími: 520 7855. Fax: 522 9413. Verð: L.160000 (6768 kr) með morgunverði. Öll helztu greiðslukort. 29 herbergi. B2)

Uppáhaldshótelið okkar, lítið og notalegt, við aðalgötu um 400 metra frá Markúsartorgi, hefur bezt hlutfall verðs og gæða í borginni. Frá suðvesturhorni torgsins er gengin Salizzada San Moisè og áfram yfir brú á Calle larga 22. Marzo, þar sem mörg sund liggja til vinstri að Canal Grande. Hótelið er við enda vestasta sundsins, greinilega merkt við aðalgötuna.

Frá lítilli og þægilegri gestamóttöku er innangengt í Rafaele veitingahúsið í sömu eigu. Langir og mjóir gangar eru skreyttir teikningum og málverkum. Þjónusta er afar lipur.

Herbergi 75 er notalegt, fremur lítið og bjart, snýr glugga að Calle larga 22. Marzo og brakar þægilega, þegar gengið er um gólf. Fornlegur húsbúnaður er léttur og vandaður, í mildum sumarlitum. Þar er sjónvarp, sími og vínskápur. Fullflísað baðherbergi hefur líka glugga og er vel búið, til dæmis stóru baðkeri og hárþurrku.

Europa e Regina

(Calle larga 22. Marzo, San Marco 2159. Sími: 520 0477. Fax: 523 1533. Verð: L.565000 (23898 kr) með morgunverði. Öll helztu greiðslukort. 192 herbergi. B2)

Eitt glæsihótelanna við Canal Grande snýr breiðri hlið að skurðinum, svo að tiltölulega auðvelt er að fá herbergi með útsýni yfir umferðina á skurðinum til Salute kirkjunnar á hinum bakkanum. Það er við aðalgötuna Calle larga 22. Marzo, um 300 metra frá suðvesturhorni Markúsartorgs. Farin er Salizzada San Moisè, yfir brúna og til vinstri ómerkta leið framhjá gondólaræðurunum.

Móttakan er í þeim hluta, sem áður var hótelið Europa, en beztu herbergin eru í Regina hlutanum. Niðri eru miklir salir, þar á meðal veitingastaðurinn Tiepolo, sem einnig er morgunverðarstofa hótelsins. Þjónusta er afar góð, svo sem hæfir stíl og verði staðarins.

Herbergi 456 er stórt og myndarlegt, vandað og virðulegt að öllum búnaði. Ljósgrænir veggir kalla á stærri málverk. Um tvær dyr er gengið út á stórar einkasvalir með einstæðu útsýni yfir Canal Grande. Húsbúnaður er forn og fagur. Öll þægindi eru á fullflísuðu baði. Þetta er lúxus-herbergi.

Fenice et des Artistes

(Campiello de la Fenice, San Marco 1936. Sími: 523 2333. Fax: 520 3721. Verð: L.250000 (10574 kr) með morgunverði. Öll helztu greiðslukort. 65 herbergi. B2)

Vel þekkt, samnefnt óperuhúsi borgarinnar, sem er við hliðina, um 500 metra frá Markúsartorgi. Frá suðvesturhorni torgsins er farin Salizzada San Moisè og áfram Calle larga 22. Marzo, þaðan sem beygt er til hægri eftir sundinu Calle delle Veste inn á Campo San Fantin framan við leikhúsið. Farið er hægra megin við leikhúsið til annars torgs, þar sem hótelið er.

Móttakan er í eins konar garðhúsi milli tveggja húsa hótelsins. Ekki er lyfta í eldra húsinu, en stigi og gangar eru teppalagðir og skreyttir gömlum munum. Starfsfólki er frekar ókunnugt um gang mála úti í bæ.

Herbergi 312 er meðalstórt og hlýlegt, snyrtilega innréttað fornum húsbúnaði, sjónvarpi og síma, og grænum litum í veggfóðri, ofnum, teppi og lofti. Glugginn snýr að smágarði. Fullflísað baðherbergi er vel búið og rúmgott, með setubaðkeri.

Flora

(Calle larga 22. Marzo, San Marco 2283a. Sími: 520 5844. Fax: 522 8217. Verð: L.210000 (8883 kr) með morgunverði. Öll helztu greiðslukort. 44 herbergi. B2)

Gamalfínt hótel og ekki dýrt, vel í sveit sett við aðalgötu í nágrenni Markúsartorgs, um 400 metra frá suðvesturhorni torgsins. Farin er Salizzada San Moisè, yfir brú og áfram eftir Calle larga 22. Marzo, þar sem beygt er til vinstri inn í hliðarsund, sem er hið þriðja í röðinni frá hinum enda götunnar. Hótelið er greinilega merkt við innganginn í sundið.

Bak við Art Nouveau inngang er allt í leðri og eðalviði. Virðulegur hótelstigi liggur upp á efri hæðir, skreyttur speglum og veggtjöldum, sem einkenna hótelið. Starfslið kann vel til verka og er einkar þægilegt og kurteist. Allir, sem ekki eru ávarpaðir “professore”, eru ávarpaðir “dottore”.

Herbergi 2 er gamalt og lúið, hreint og gott, búið fornum húsgögnum, sjónvarpi, síma og hárþurrku. Gluggar snúa út að nostursömum garði að baki anddyris. Fullflísað og nýtízkulegt baðherbergi er afar vel búið.

Marconi

(Riva del Vin, San Polo 729. Sími: 522 2068. Fax: 522 9700. Verð: L.283000 (11970 kr) með morgunverði. Öll helztu greiðslukort. 26 herbergi. B1)

Skemmtilegt og vel staðsett á bakka Canal Grande, nokkrum skrefum frá Rialto-brú. Frá Rialto bátastöð er farið yfir brúna og beygt til vinstri eftir bakkanum Riva del Vin.

Að baki inngangs er lítil og snyrtileg móttaka með hæfu starfsliði. Flóknir stigar liggja upp á hæðirnar, langir gangar og síðan aftur stigi niður í morgunverðarsal með hlaðborði að norður-evrópskum hætti.

Herbergi 11 er stórt og vel búið fornum húsgögnum, sjónvarpi og síma, hárþurrku og vínskáp, gólfteppi á terrazzo-gólfi og sérkennilega ljótum glerljósakrónum í svifstíl á veggjum. Burðarbitar sjást í lofti. Útsýni er aðeins út í næsta vegg. Fullflísað baðherbergi er stórt og nýtízkulegt, með hitagrind fyrir handklæði.

Monaco e Grand Canal

(Calle Vallaresso, San Marco 1325. Sími: 520 0211. Fax: 520 0501. Verð: L.360000 (15227 kr) með morgunverði. Öll helztu greiðslukort. 70 herbergi. B2)

Öndvegishótel með breiðri framhlið og frábæru útsýni yfir Canal Grande að Santa Maria della Salute, óvenjulega vel í sveit sett um 100 metra frá Markúsartorgi. Frá suðvesturhorni torgsins eru farin nokkur skref eftir Salizzada San Moisè og beygt til vinstri inn í Calle Vallaresso, þar sem hótelið er hægra megin sundsins úti á skurðbakka.

Hótelið hefur þann kost umfram flest önnur, að meirihluti herbergjanna snýr út að breiðum og fjölförnum skurðinum. Starfsfólk er einkar þægilegt.

Herbergi 306 er afar vel búið vönduðum og fornlegum húsgögnum úr renndum eðalviði, handmáluðum fataskáp og virðulegu skrifpúlti, sjónvarpi og síma. Fullflísað baðherbergi er nýtízkulegt og vel búið. Glugginn snýr beint að Canal Grande.

Paganelli

(Riva degli Schiavoni, Castello 4182. Sími: 522 4324. Fax: 523 9267. Verð: L.160000 (6768 kr) með morgunverði. Öll helztu greiðslukort. 22 herbergi. B2)

Afar hagstætt hótel á breiða gönguferðabakkanum andspænis lóninu um 300 metra frá hertogahöllinni. Bátastöðin San Zaccaria er beint framan við hótelið, sem er í tveimur aðskildum hlutum. Annar er á sjálfum bakkanum og hinn í sundi þar við hliðina. Móttakan er í fyrrnefnda hlutanum, þar sem herbergin eru heldur dýrari og morgunverðarstofan í hinum síðarnefnda.

Hótelið er afar lítið og þröngt, hreinlegt og þægilegt, án lyftu, rekið af þægilegu starfsfólki, sem reynir ekki að breiða yfir mistök. Morgunmatur er fremur góður, því að ávextir eru á boðstólum.

Herbergi 23 er í hliðarálmunni, afar lítið, búið fornum og samræmdum húsgögnum, þar á meðal handmáluðu skrifpúlti. Beinn sími er á herberginu, en ekki sjónvarp. Fornir burðarbitar í lofti fegra staðinn. Fullflísað baðherbergið er nýtízkulegt og vel búið, þar á meðal hitagrind fyrir handklæði, sem eru óvenju stór.

Sturion

(Calle Sturion, San Polo 679. Sími: 523 6243. Fax: 522 8378. Verð: L.180000 (7614 kr) með morgunverði. Öll helztu greiðslukort. 11 herbergi. B1)

Sérkennilegt hótel og skemmtilegt, aðeins 100 metra frá Rialto brú. Frá Rialto bátastöðinni er farið yfir brúna og beygt til vinstri eftir bakkanum Riva del Vin og síðan beygt til hægri inn í portið Calle Sturion, þar sem hótelið er vinstra megin. Þaðan liggur svo ógnarlangur og beinn stigi upp á fimmtu hæð.

Hótel með þessu nafni var rekið í húsinu í fimm aldir, frá lokum 13. aldar til loka 18. aldar, þekkt af málverkum og fornum skjölum. Eftir tveggja alda hlé var síðan opnað hótel aftur, en aðeins á tveimur efstu hæðum hússins. Það er notalegt fjölskyldufyrirtæki með góðri morgunverðarstofu, sem býður útsýni yfir Canal Grande. Tvö herbergjanna snúa þangað líka.

Herbergi 10 er afar sérkennilegt, myndar langan gang, þar sem lítið baðherbergi er fremst, síðan forstofa og gangur með vaski og loks svefnálma í innsta enda. Úr litlum glugga er útsýni yfir húsþök San Polo hverfis. Húsbúnaður er gamaldags, en hreinlegur. Þarna er sjónvarp og sími, vínskápur og hárþurrka.

uýmist að fremur breiðri götunni milli hótels og Accademia eða að óvenjulega stórum bakgarði.

Herbergi 3 er fremur lítið og einfalt, með glugga út að garði, afar hreinlegt og milt í litum, með síma og hárþurrku.

1996

© Jónas Kristjánsson