Fenjalífið

Greinar

Þótt menn komi ekki til Feneyja í leit að náttúrunni, hafa Feneyingar gott náttúruminja- og náttúrufræðisafn, auðvitað með áherzlu á líf í fenjum. Þeir gera vel við það í 800 ára gamalli Tyrkjakrá, Fondacio Turchi, býzanskri höll, sem er eitt mest áberandi mannvirkið við Stóraskurð, Canal Grande.

Þótt menn komi til Íslands í leit að náttúrunni, hverum og eldfjöllum, fossum og hrauni, jöklum og hestum, bjóðum við ekki náttúruminja- og náttúrufræðisafn. Reykjavík er eina stórborgin, sem ég hef komið í, er ekki býður ferðafólki upp á slíkt safn, þegar eitthvað er að veðurfari utan dyra.

Ferðamenn geta þolað Reykjavík í rigningu í einn eða tvo daga. Í Feneyjum geta þeir hins vegar skoðað söfn vikum saman, því að þau eru í annarri hverri götu, og kirkjur á öðru hverju horni, margar hverjar fullar af málverkum frægra meistara fyrri alda. Samt hafa þeir líka náttúruminjasafn.

Hér í Feneyjum eru alls engir bílar, enda sofa menn vel við dauft skvamp og nudd af hnjaski gondóla við tréstaurana, sem þeir eru festir við. Fyrir fólk eru bátar einu farartækin og fyrir vörur eru það bátar og hjólbörur. Enda hafa Feneyjar ekkert efnahagslíf, annað en það, sem snýst um ferðamenn.

Bílar eru bannaðir í fleiri borgum, til dæmis Dubrovnik í Króatíu, en það eru bara þorp í samanburði við Feneyjar, sem öldum saman var eitt af heimsveldunum. Ýmsar borgir hafa lokað gömlum borgarhlutum fyrir bílum, en hér er öll borgin lokuð, öll. Það gerir Feneyjar sérstaklega ferðamannavænar.

Göngugötuhverfi í borgum með kaffihúsum, veitingastofum og öðrum slökunarstöðum eru athvarf þeirra, sem hafa nógan tíma, svo sem ferðamanna. Á slíkum stöðum er dýrt að reka fyrirtæki, sem þurfa aðföng. Feneyjar eru dýrar. Þar er efnahagslífið haft í felum í hverfinu Mestre uppi á landi.

Reykjavík getur ekki hermt eftir sögufrægum stórborgum, af því að þar er eitthvað að veðri helminginn af árinu og borgarstjórn skortir hugrekki til að yfirbyggja Laugaveg. Því flýr reykvískt borgarlíf inn í möllin að bandarískum hætti. Meira að segja ferðamenn flykkjast inn í möllin.

Feneyjar hafa annað fram yfir Reykjavík. Öldum saman hefur engum stjórnmálamanni dottið í hug að þétta byggð með því að byggja ný hús innan um gömul. Ef borgarfulltrúi frá Reykjavíkurlistanum kæmi hingað til Feneyja, væri hann talinn vera geðveikur og fluttur í viðeigandi “hospitale”.

Ár eftir ár kem ég til Feneyja, fæ mér svalir við Stóraskurð og skrifa úti á svölum með útsýni til Rialto-brúar. Feneyjar hafa allt, sem Reykjavík hefur ekki, jafnvel náttúrusafn.

Jónas Kristjánsson

DV