Fenrisúlfur

Greinar

Ekkert ástand er varanlegt, allra sízt í markaðshagkerfi. Einn góðan veðurdag kemur einhver í sjávarplássið þitt og kaupir sjávarútveginn. Hann lofar upp á æru og trú að flytja skipin ekki burt. Svo flytur hann þau til Akureyrar, af því að hann hefur ekki æru og trú. Þannig virkar hagkerfið.

Markaðshagkerfið getur einn daginn stuðlað að fjölbreytni í fjölmiðlun og hinn daginn eyðilagt hana. Það er nánast tilviljun, að þremur mikilvægum fjölmiðlum hér á landi var bjargað frá hruni á skömmum tíma. Það er nánast tilviljun, að fullburða fréttastofur eru hér sex en ekki þrjár.

Myrkrahöfðingi vestrænnar fjölmiðlunar, sjálfur Rupert Murdoch, getur á morgun keypt flesta íslenzka fjölmiðla og breytt þeim í lygamaskínur. Ekkert er öruggt í heimi markaðshagkerfisins, ekki einu sinni sú óvenjulega góða staða, sem er á íslenzkri fjölmiðlun einmitt þessa dagana.

Sumir styðja markaðshagkerfið, af því að það skaffar. Aðrir eru á móti því, af því að þeir óttast allar breytingar á núverandi ástandi, hvert sem það er á hverjum tíma. Fyrra sjónarmiðið ræður því, að um nokkurt skeið hefur staðið yfir umfangsmikil sala ríkiseigna í hendur hlutafélaga á markaði.

Samt er tvískinnungur í pólitískum armi þessa hagkerfis. Annars vegar er því haldið fram, að til langs tíma leiti það að beztu niðurstöðu og finni nýjar leiðir til að snúast gegn vandamálum, sem upp koma, rétt eins og sjálft lýðræðið geri. Þeir tala um innbyggða sjálfvirkni markaðshagkerfisins.

Hins vegar eru menn dauðhræddir við einstakar afleiðingar þess, einkum samþjöppun valds. Menn líta öðrum þræði á það sem Fenrisúlf. Um fjölmiðlun setja þeir á laggir trausta nefnd flokksjálka til að gera tillögur um læðing og dróma. Síðan vilja þeir sértæk lög gegn afleiðingu hagkerfisins.

Raunar byggist allt þetta ferli á óslökkvandi heift eins haturgjarns manns í garð annars. Heiftin næði hins vegar ekki fram að ganga, ef ekki væri innan stjórnarflokkanna eyra fyrir því sjónarmiði sósíalista, að markaðshagkerfið sé eins konar Fenrisúlfur, sem reyra þurfi í ríkisviðjar.

Sósíalistar til hægri og vinstri og einkum á miðjunni líta ekki á þá staðreynd, að ástand frétta og fjölmiðlunar er betra á landinu um þessar mundir en það hefur verið í manna minnum. Þeir líta bara á færi til að koma böndum á anga af óstýrilátum og oft tillitslausum öflum markaðshagkerfisins.

Fólk man, að lofað var, að Guggan yrði áfram gul og að það var svikið. Markaðshagkerfið nýtur ekki almenns trausts. Því verða til ógagns sett sértæk lög um læðing og dróma á eignarhald fjölmiðla.

Jónas Kristjánsson

DV