Ferðadagurinn

Hestar

Einar Bollason:

Í fjallaferðum er morgunmatartíminn fínt tækifæri fyrir húslestur. Þá er gott að lýsa aðstæðum á væntanlegri dagleið og setja mönnum lífsreglurnar, segja frá örnefnum og sögustöðum. Fólk vill vita, hvernig leiðir eru, hvernig áfangar skiptast, hvenær er bezt að nota grófa hesta, hvar eru ár á leiðinni, hvernig er bezt er að vera skóaður, hvar markverðir staðir séu og svo framvegis. Þeir, sem fróðari eru, miðla hinum. Þetta á líka að gera, þótt ekki séu nema 6-8 menn í ferðinni.

Draumadagleið er 30-35 kílómetrar. Þá leið er gott að fara með stoppum á fimm-sex tímum. Menn eiga raunar ekki að vera streitast neitt meira. Þá er gott að geta fundið á miðri leiðinni góðan stað, þar sem hægt er að stoppa í einn eða einn og hálfan klukkutíma. Á slíkri dagleið mundi meðalþungur maður nota þrjá hesta, en þungur maður eins og ég mundi velja fjóra hesta.

Á þessari venjulegu dagleið er gott að byrja á morgunmat milli klukkan átta og níu. Einhverjir eru komnir á stjá klukkan sjö, fara að gefa og hita kannski kaffi sjálfir án þess að vekja kokkinn. Svo þarf að ganga frá og sumir fara að líta á hrossin og smala þeim, ef þess þarf. Síðan hittast allir úti við hestana klukkan tíu og eru komnir í hnakkinn klukkan ellefu. Ég vil helzt vera kominn í náttstað klukkan fimm-hálfsex. Þá hafa menn góðan tíma til að þvo sér og fá sér í glas eftir vínbann dagsins, áður en farið er að borða kvöldmatinn klukkan sjö. Svo eru menn bara komnir í ró klukkan ellefu. Þetta er draumaferðin, sem hentar miklum meirihluta manna.

Ef dagurinn er lengri, til dæmis 50 kílómetrar, er mikilvægt að taka hann fyrr en þetta, svo að ekki sé komið seint í náttstað. Fólk þreytist meira, ef dagurinn er afturþungur heldur en það gerir, ef dagurinn er framþungur. Séu dagleiðir 60-70 kílómetra er bezt að hafa hvíldardag á eftir.

Mér finnst bezt að skipta sem oftast um hest á ferðalagi. Það er miklu betra að ríða hesti tvisvar sinnum tíu kílómetra á dag, en einu sinni tuttugu. Þetta er meginreglan. Í stórum hópum er oft freistandi að skipta sjaldnar en æskilegt er, þegar langur vegur er fyrir höndum, og hvert stopp tekur mikinn tíma. En við venjulegar aðstæður finnst mér hæfilegt að skipta á þriggja kortéra til klukkutíma eða tæplega tíu kílómetra fresti. Fyrsti spottinn á hverjum degi má þá ekki vera lengri en um það bil hálftími. Auðvitað fer þetta eftir landi og eftir því, hvar eðlilegir áningarstaðir eru. Þetta fer líka eftir þyngd manna og hvað menn krefja hestinn mikið.

Það er fáránlegt að vera á hestaferðalagi, þar sem allir stjórna. Samkomulag verður að vera um einn stjórnanda, sem getur svo skipað undirstjóra til sérverka, svo sem að stjórna eftirreið eða forreið eða vera leiðsögumaður, ef hópurinn er svo stór, að fararstjórinn telji eitthvað af slíku vera æskilegt. Mikilvægt er fyrir stjórann að sjá um, að alltaf sé einhver vanur maður á öflugum hesti á þeim stað, þar sem stjórinn er ekki. Það þarf alltaf að vera einn vanur maður bæði fyrir framan og aftan. Stjórinn á að ráða öllu, sem viðkemur reiðinni, en þarf ekki að ráða öðrum þáttum ferðarinnar, svo sem fótaferðatíma. Sjálf reiðin er eins og skip, sem lætur ekki að stjórn, nema einn sé skipstjóri og hafi skipstjóravald.

Menn þurfa að koma sér saman um, hverjir séu hverju sinni í forreið og eftirreið. Þetta fer að nokkru leyti eftir þeim hestum, sem menn eru á hverju sinni. Svo finnst sumum gaman að vera á eftir, af því að þá sjá þeir hestalestina í forgrunni náttúrunnar. Öðrum finnst gaman að vera sem mest á undan. Yfirleitt er auðvelt að raða í þessa hópa.

Allir þurfa að kunna reglurnar við rekstur. Mér finnst miður, að hvergi skuli vera boðin námskeið í hestaferðum. Menn, sem hafa verið í ferðum í tuttugu ár, eru enn að gera grundvallarmistök í rekstri hrossa. Það er hins vegar unun að ferðast með fólki, sem hefur þessa hluti á hreinu.

Fyrsta reglan í hrossarekstri er, að hinn fullkomni rekstur er, þegar hrossin lesta sig slök og róleg hvert á eftir öðru og eftirreiðarmenn eru 15-20 metrum fyrir aftan þau. Auðvitað verða menn að vaka yfir því, að reksturinn slitni ekki, en það þarf ekki að gera það með neinum látum. Menn mega ekki vera öskrandi og gargandi, því að þá vekja köllin enga eftirtekt, þegar menn þurfa raunverulega að nota þau, til dæmis þegar hestur tekur strikið úr hópnum. Ef raddböndin eru spöruð, vita hestar og menn, þegar eitthvað er raunverulega að. Versti galli hestaferða eru eftirreiðarmenn, sem komast í ákveðna tegund af algleymi og eru óafvitandi gargandi og öskrandi í rassinum á aftasta hrossi.

Það er allt í lagi, að einn og einn hestur hlaupi upp úr götu og sé til hliðar við lestina. Yfirleitt er hann ekkert að hugsa um að fara sínar eigin leiðir, heldur hefur hann aðeins orðið undir í valdabaráttu í lestinni og á eftir að finna sér nýjan stað aftar í henni. Stundum er einn grimmur hestur, sem fer hægt og heldur öðrum fyrir aftan sig, svo að mikið bil myndast í lestina. Þá þarf oft að hjálpa þeim hrossum, sem þora ekki framúr, og það gengur kannski ekki nema með einhverjum hávaða. Bezt er þó að gera það með því að ríða fram með lestinni og hotta á hestinn, sem stíflar hana.

Önnur mikilvæg regla er að reyna að hægja á rekstrinum, ef framundan er brekka niður. Hrossin herða á sér og fara að ýta á forreiðina, sem þarf að halda aftur af þeim. Enn ein regla er að láta aldrei einn mann standa á pípuhliðum, heldur alltaf tvo. Einnig þarf alltaf að minnsta kosti einn maður að bíða eftir þeim, sem lokar hliðum, svo að hann komist klakklaust á bak hesti, sem er hræddur við að missa af hópnum. Bezt er, að öll eftirreiðin bíði eftir manninum, sem er að fara á bak. Það skiptir engu máli, þótt 50-70 metrar séu í aftasta hest, þegar eftirreiðin fer af stað.

Í áningu er mikilvægt að leggja ekki af stað, fyrr en allir eru komnir í hnakkinn. Þegar forreiðin leggur af stað, má eftirreiðin ekki leggja jafnóðum af stað. Hún á að bíða eftir, að lausu hrossin fari að lötra á eftir forreiðinni og byrja að lesta sig, sem þau gera undantekningarlaust strax. Eftirreiðin má ekki æsa þau upp á fulla ferð með því að reka á eftir þeim. Það er auðvitað fiðringur í mönnum og hestum í eftirreiðinni og þess vegna endurtekur þetta vandamál sig alltaf aftur og aftur, þótt menn viti betur. Þegar farið er af stað, þarf að taka tillit til þess, að lausu hrossin eru enn í hnapp og eiga eftir að teygja hópinn upp í langa lest.

Ef lausir hesta fara fram úr forreiðarmanni, til dæmis af því að hann er ekki á heppilegum forreiðarhesti, of lötum eða of viljugum, borgar sig ekki fyrir hann að streitast við, heldur hægja ferðina og síga aftur í eftirreiðina. Þetta getur komið í veg fyrir slys, sem verða, þegar menn ráða ekki lengur við hestinn sinn, þegar hann æsist upp.

Ég nota yfirleitt písk út af rekstrinum. Ágeng hross fremst í rekstri verða yfirleitt þægari, ef menn hafa eitthvað til að sveifla. Píska má líka nota sem spelkur við beinbroti.

Á þurru og gróðurlausu landi mega forreiðarmenn ekki ríða framhjá vatni eða læk án þess að stoppa, því að menn vita aldrei, hvenær maður kemur næst að vatni. Þegar hestar forreiðarmanna hafa drukkið, mega þeir ekki halda áfram eins og ekkert hafi í skorizt, heldur halda aftur af stóðinu og gefa bara hægt og sígandi eftir, svo að aftari hestarnir og hestar eftirreiðarmanna verði ekki of æstir til að gefa sér tíma til að drekka. Það er mikilvægt, að allir drekki. Því er bezt að forreiðin geti haldið rekstrinum, meðan eftirreiðin vatnar sínum hestum. Sumir hestar drekka ekki einu sinni, nema reiðmaðurinn fari af baki.

Eftirreiðarmenn þurfa að fylgjast með hlaupalagi hesta og hlusta eftir skeifnaglamri, svo að hestar detti ekki úr leik með því að hlaupa lengi með stein í hófi eða skeifulausir.

Hjá vegagerðinni hafa verið merktir staðir fyrir skiptihólf, sem auðvelda ferðamönnum hestaskipti. Þessum hólfum fer sem betur fer fjölgandi. Þau er til dæmis komin upp á Landmannaafrétti og eru væntanleg á Kili. Bezt eru þessi hólf, þegar lækur rennur um þau.

Ef ekki eru skiptihólf, borgar sig alltaf að slá spotta kringum allan hópinn. Einhver í forreiðina þarf að vera með bandið, svo að menn séu byrjaðir að taka það út, þegar stóðið kemur. Ég nota þessa spotta líka, þótt næturhólf séu girt. Þá set ég spottann á hliðin og á þá hlið girðingarinnar, sem snýr heim frá sjónarmiði hrossanna. Sumir hestar virða gaddavír og aðrir virða rafmagnsvír. Það er aldrei of varlega farið.

Þegar verið er að skipta á hestum, eru allir á bandinu. Fyrsta mál á dagskrá er að byrja á því að anda rólega. Við þurfum að ná niður þessum athafnamönnum, sem eru þegar byrjaðir á hestaskiptum um leið og bandið lokast hringinn. Í fámennari hópum er bezt, að það séu bara ein hjón inni í einu að taka hesta, svo að taka eins hests trufli ekki töku annars. Þegar eitt par er komið út með sína hesta, tekur næsta par strax við, og fyrra parið fer strax að leggja á og ganga rösklega frá sínum málum til að gera farið sem fyrst á bandið með hinum. Auk þess er gott, að parið skiptist þá strax um að gera það, sem það þarf að gera, svo sem að fara í galla eða úr eða að ná í nestið.

Því gæfari, sem hestar eru, þeim mun betra verður ferðalagið. Einn og einn maður er stundum með snarvitlausa hesta, sem framkalla mikla streitu allra, þegar verið er að reyna að ná þeim. Menn þurfa að gæta sín á að vera ekki að eyða óratíma í að reyna að ná styggum hesti. Slíka hesta er bezt að taka að morgni dags eða í skiptihólfi, þar sem aðstæður eru rólegar. Að öðrum kosti er ráð að fá aðstoð annarra við að ná hestinum og ganga ekki of framarlega að hestinum, þegar hann hefur verið króaður af, heldur stefna á bóginn. Ef hestur sleppur úr kví, er vont, að menn byrji strax að hlaupa og æsa sig upp. Sumir hestar þurfa að fá leyfi til að rölta tvo-þrjá hringi, áður en þeir leyfa manni að ná sér.

Ég hef aldrei utan einu sinni farið um land, sem ég þekki ekki, án þess að vera með mann, sem þekkir landið. Ég hef haft þetta fyrir reglu. Menn mega vera mjög öruggir með sjálfa sig og vera í mjög góðu veðri, ef menn ætla að fara með hóp, þar sem enginn er kunnugur. Ég ræð mönnum eindregið til að fá sér góðan leiðsögumann. Það er ekkert mál að finna þá og það kostar ekki mikið, þegar það deilist á marga.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 10.tbl. 2003