Ferðaþjónusta allt árið

Greinar

Ef takast á að lengja ferðamannavertíð landsins, þarf að bjóða fleira en sumarsól og sumarfagra póstkortanáttúru. Eitthvað verður líka að geta freistað erlendra ferðamanna á öðrum árstímum og síðan haldið jákvæðri athygli þeirra, þegar þeir eru komnir til landsins.

Ráðstefnur, ársfundir og sýningar eru ein efnilegu leiðanna að þessu marki. Að hluta til njótum við þar ákveðinnar sjálfvirkni, því að ýmsar stofnanir eru að reyna að safna löndum í mannfundaskrá sína. Röðin kemur um síðir að Íslandi, þegar þannig er hugsað.

Hins vegar gerum við lítið til að fá þetta fólk til að minnast dvalarinnar hér á landi, segja öðrum frá henni og jafnvel koma sjálft hingað aftur við önnur tækifæri. Margt af innviðum ferðaþjónustunnar leggst í dvala á hausti og vaknar ekki aftur fyrr en að vori.

Gistihús, veitingastaðir og ráðstefnusalir í Reykjavík eru upp að vissu marki frambærilegar, en engan veginn svo minnisstæðar stofnanir, að þær geti talizt eins konar ferðamannaparadísir. Yfirleitt líkjast þær hliðstæðum og hversdagslegum miðlungsstofnunum í útlöndum.

Bláa lónið við Svartsengi er um það bil að taka við af Gullfossi og Geysi sem einkennistákn landsins. Það hefur þann kost að nýtast til ferðaþjónustu allt árið og vera í seilingarfjarlægð þeirra ferðamanna, sem eru á Reykjavíkursvæðinu og hafa lítinn tíma til umráða.

Reykjavíkurborg og Hitaveitan geta lært af reynslunni af Bláa lóninu, hannað landnýtingu og mannvirki á Nesjavöllum með hliðsjón af útivist og slökun og haft frumkvæði að stofnun þróunarfélags um fjölbreytta ferðamanna- og heilsuræktarþjónustu á staðnum.

Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu geta tekið til hendinni og boðið ýmsar fleiri tegundir af sérstæðri afþreyingu að vetrarlagi, til dæmis með áherzlu á hollustu og hreyfingu. Þar með má telja gönguferðir og hestaferðir, gönguskíðaferðir á jökli og dorgveiði á ís.

Akstursíþróttir í sandgryfjum kunna einnig að freista sumra, enn fremur vélsleðaferðir um jökla, fjallatrukkaferðir um óbyggðir og skotveiði á sjó og landi. Í öllum þessum tilvikum og þeim, sem áður var getið, er náttúra landsins höfð að bakgrunni athafna ferðamannsins.

Jarðhitinn nýtist ekki aðeins til sundlauga og heitra potta, heldur einnig til leirbaða, sem síðan tengjast náttúrulækningum og mataræði, eins og við þekkjum frá Heilsustofnun í Hveragerði. Afeitrunarstöðvar áfengis, tóbaks og ofáts geta einnig verið þáttur ferðaþjónustu.

Sameiginlegt með öllum þessum hugmyndum er, að þær nýtast ferðaþjónustunni að vetrarlagi og gera ráð fyrir eigin þátttöku ferðamannsins í einhverri hreyfingu, sporti eða hollustu, með hrikalega náttúru landsins að bakgrunni. Ýmsa þessa þætti má selja sameiginlega.

Ein helzta dægrastytting ferðamanna er búðarápið. Merkjavöruverzlanir í Reykjavík geta tekið saman höndum um að tryggja, að álagning á merkjavöru í verzlunum félagsmanna hækki ekki frá því sem nú er og verði áfram lægri en hún er yfirleitt í heimalöndum ferðamanna.

Einna lakast er ástandið í söfnum. Ekkert safn á Íslandi er ferðamönnum minnisstætt. En safnahúsið við Hverfisgötu má innrétta sem ferðalagasafn í margmiðlunarstíl með Guðríði Þorbjarnardóttur að grunnþema, ferðir hennar til Grænlands, Vínlands og Rómar.

Þannig er unnt að smíða innviði ferðaþjónustu að vetrarlagi og seiða hingað fleiri ferðamenn, einkum þá, sem hafa dýrari lífsstíl en þeir, sem nú koma að sumri.

Jónas Kristjánsson

DV