Ferðavín

Hestar

Andreas Bergmann:

Áfengi er minna notað en áður, alls ekkert yfir daginn, en sumir fá sér rauðvín og bjór á kvöldin, aðrir ekki.

Árni Ísleifsson:

Oft er ég með bjór eða pela til að grípa í kvöldin. Mér finnst bezt, að ró sé komin á mannskapinn milli kl. 11 og 12 á kvöldin.

Kristjana Samper:

Við drekkum ekki vín á hestbaki, en höfum alltaf vín með kvöldmatnum. Það eru pappafernur, sem keyptar eru sameiginlega af hópnum. Víninu höldum við volgu á hitakönnum meðan við borðum.

Bjarni E. Sigurðsson:

Ég vil ekki, að áfengi sé notað í hestaferðum og ekki heldur tóbak. Þetta eru nautnalyf, sem ekki hæfa í samneyti við hesta og náttúru.

Einar Bollason:

Ég vil helzt vera kominn í náttstað klukkan fimm-hálfsex. Þá hafa menn góðan tíma til að þvo sér og fá sér í glas eftir vínbann dagsins, áður en farið er að borða kvöldmatinn klukkan sjö. Svo eru menn bara komnir í ró klukkan ellefu.

Hannes Einarsson:

Nú er yfirleitt búið að banna allt sem heitir áfengi, enda sýnir reynslan, að það hentar ekki á daginn í löngum hestaferðum, allra sízt ef hópurinn er fjölmennur.

Hjalti Gunnarsson:

Mikilvægast er að hafa notkun víns í lágmarki yfir daginn, áður en komið er náttstað. Bezt er raunar, að hún sé engin, meðan menn eru á hestbaki.

Ólafur B. Schram:

Menn mega nota áfengi eins og þeir vilja, en þeir mega ekki láta sjá á sér.

Viðar Halldórsson:

Mér finnst gott að fá mér glas að kvöldi, en vil ekki hafa vín um hönd á ferðalaginu yfir daginn. Þótt menn kunni vel með vín að fara og ekki sjái á þeim, þá er það staðreynd, að það fer miklu meiri orka í ferðina hjá þeim, sem staupar sig. Menn verða þreyttari en ella, hafa ekki úthald og gera kannski mistök, sem koma niður á öllum.

Þormar Ingimarsson:

Meðan ferðast er á hestum er mikilvægt, að ekki sé notað áfengi af neinu tagi. Á kvöldin er í lagi að nota vín í hófi fram að fyrirfram ákveðnum háttatíma, en alls ekki til að detta í það.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 8.tbl. 2003