Fiðlarinn

Veitingar

Lengi lifði Fiðlarinn á þaki Akureyrar á glæsilegu útsýni til þriggja átta og til þeirrar fjórðu af barnum út fjörðinn. Matreiðslan stóð ekki undir háu verði en nú hefur hún batnað. Þjónustan var alltaf góð og er það enn hjá yfirþjónum en of mikið er treyst á lærlinga.

Háir gluggar, viðarloft, glerkúluljós og rauðir litir í teppi, stólum, dúkum og gluggatjöldum, veita virðulegt yfirbragð, sem hangandi píanó og fiðla í lofti hlaða listrænni spennu. Nokkrar gerðir árgangspúrtvíns í löngum vínlista gefa í skyn, að hér sé alvara á ferð. Þetta er hæfileg umgerð um 4.450 króna skýjareikning fyrir þríréttað með kaffi.

Kjúklingalifrarkæfa var sérkennilega römm og minnisstæð, með furuhnetum og rúsínum í ediksolíu, fyrsta flokks tilraun. Fjórar risahörpuskeljar á trépinna voru bragðlausar út af fyrir sig en skemmtilega kryddaðar sítrónugrasi, hvítlaukssmjöri og mórillusveppum, bornar fram með bragðmiklum hrísgrjónum.

Skemmtilegar en ofkeyrðar andstæður voru í sterklega saffran- og sítrónukryddaðri kræklingasúpu, sem sýndi eins og lifrarkæfan tilþrif og frískleika í eldhúsi.

Fiskur er ekki spennandi á matseðli, engin breyting frá degi til dags, heldur hefðbundið lágmarksframboð fjögurra fisktegunda, sem auðveldast er að geyma í frysti, svo sem eldislax og skötusels. Betra er að halla sér að kjötinu á Fiðlaranum, en fara í Smiðjuna, ef maður vill fisk á Akureyri.

Heilsteikt nautalund var meyr og bragðlaus, sennilega úr Hrísey, ekki merkileg út af fyrir sig, en haldið uppi af perlulauk, sveppum og höm að Búrgundarhætti, svo og ágætlega kryddaðri kartöflustöppu.

Lambalundir voru bezti réttur staðarins, innbakaðar í ristuðum kartöflum, fallega upp settar í þremur turnum, bornar fram með rósmarínsósu og góðu salati. Þetta var dæmi, sem gekk upp, Stradivarius Fiðlarans.

Eftir risið kom hnig eftirréttanna, sem voru eingöngu ísar. Vanilluís með jarðarberjum var vanilluís með jarðarberjum, en maple-ís með sítrónubúðingi og hindberjasósu var sér á parti, fallegur og hressandi.

Jónas Kristjánsson

DV