Sjómannaverkfallið stafar af því, að þjóðfélagið hefur látið undir höfuð leggjast að láta alþjóðleg uppboð á veiðileyfum leysa dauðþreytt kvótakerfi af hólmi. Fyrir bragðið láta deiluaðilar eins og fífl í skjóli aðstöðu, sem þeim hefur verið skömmtuð með kvótakerfi.
Verkfallið er ein margra birtingarmynda vandræðanna, sem þjóðfélagið bakar sér með því að afhenda völdum aðilum fjöregg þjóðarinnar. Nú ætti að grípa tækifærið og taka fjöreggið úr höndum þeirra, sem enn einu sinni hafa sýnt, að þeir kunna ekki með að fara.
Dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð láta deiluaðilar opinberlega eins og börn í sandkassa. Í gær var deilan eins óleysanleg og hún hafði verið á fyrsta degi. Mikil verðmæti fara senn í súginn, af því að þjóðfélagið lætur deiluaðila komast upp með þetta.
Deiluaðilar notfæra sér, að þjóðfélagið hefur meiri hagsmuna að gæta en þeir sjálfir. Þeir telja sig vita, að stjórnvöld vilji leggja meira en lítið af mörkum til að fá deiluna leysta og því leysa þeir ekki deiluna sjálfir, heldur halda áfram að kasta skít hver í annan.
Grundvallarvillan felst í að afhenda útgerðarmönnum auðlindina til ráðstöfunar. Það jafngildir eignarhaldi þeirra, svo sem fram kemur í, að veiðiréttur gengur kaupum og sölum, gengur í arf og er ágreiningsefni í hjónaskilnaðarmálum. Þetta er þjóðinni að kenna.
Kjósendur hafa látið þingmenn komast upp með að ljúga sig frá málinu með því að setja lög, þar sem sagt er í einni málsgrein, að þjóðin eigi auðlindina, en í öllum hinum rakið í smáatriðum, hvernig útgerðarmenn megi eiga hana í raun, svo sem komið hefur í ljós.
Þeir þurfa ekki að semja, sem eiga auðlindina. Þeir bíða bara átekta í sandkassaleik um kaup og kjör. Þeir bíða eftir, að Alþingi setji lög um verkfallið eins og það hefur gert eftir síðustu sandkassaleiki. Þeir segja, að lög komi ekki til greina, en þeir vænta þeirra samt.
Þjóðfélagið hefur búið til notagildi auðlindarinnar með því að stækka fiskveiðilögsöguna hvað eftir annað og setja reglur um hámarksafla einstakra tegunda. Ef ekki hefðu verið þessar pólitísku gerðir, væri íslenzk útgerð í hundunum og aflabrestur á öllum vertíðum.
Þjóðfélagið á sjálft að taka gróðann af þessum aðgerðum sínum með því að lýsa eignarhaldi sínu á auðlindinni og bjóða út aðgang að leyfðum afla á alþjóðlegum uppboðsmarkaði. Engu máli skiptir, hver veiðir, ef íslenzka þjóðfélagið hirðir arðinn af uppboðunum.
Þegar uppboð hvers árs hafa farið fram, skiptir þjóðfélagið litlu máli, hvort málsaðilar rífist eins og hundar og kettir um skiptingu síns hluta. Það er með sinn arð á hreinu. Hinir óhæfu geta þá hjálparlaust valið, hvort þeir eyða tímanum í að fíflast í sandkassaleikjum.
Við erum þjóðfélagið. Sem kjósendur getum við á fjögurra ára fresti rekið fulltrúa okkar á Alþingi úr starfi og fengið nýja, sem samþykkja lög um alþjóðleg uppboð veiðileyfa og mynda nýja ríkisstjórn til að framkvæma lögin. Þetta getum við gert eftir hálft annað ár.
Slík mannaskipti gerast ekki meðan við leyfum núverandi stjórnmálaflokkum að ráða ferðinni. Þeir bera allir ábyrgð á núverandi rugli í sjávarútvegi og munu varðveita ruglið eftir kosningar, ef þeir fá til þess færi. Breytingar kalla á ný stjórnmálaöfl, bæði menn og flokka.
Við óbreytt ástand er það kjósendum sjálfum að kenna, að fulltrúar deiluaðila láta eins og fífl í sandkassanum, þar sem þeir kasta fjöregginu milli sín.
Jónas Kristjánsson
DV