Þegar sólarstrandarhátíð ungmenna var haldin í Nauthólsvík um daginn, hélt lögreglan því fram, að hún hefði séð þekkta fíkniefnasala í hópnum. Samkvæmt því veit lögreglan um suma fíkniefnasala án þess að gera neitt í því. Það vekur efasemdir um hæfni hennar í starfi.
Ef lögreglan getur ekki tekið fíkniefnasala höndum vegna skorts á sönnunargögnum, ætti hún að geta fylgt þeim eftir, hlerað síma þeirra og fundið slóðir til heildsalanna, sem sjá götuhornasölum fyrir efnum. Hún ætti að geta rakið slóðina frá endapunkti viðskiptanna.
Reynslan sýnir, að þetta getur hún ekki. Allur þorri fíkniefna, sem lagt er hald á, finnst í innflutningi, það er að segja í gámum úr skipum, í pósti og við komu farþega á Keflavíkurvelli. Það eru tollverðir, sem finna efnin, þótt lögreglan taki svo við málunum og fylgi þeim eftir.
Stóru fíkniefnamálin í fréttum fjölmiðla hafa undantekningarlaust hafizt vegna upplýsinga frá upphafspunkti ferils efnanna en ekki vegna upplýsinga frá endapunkti hans. Þetta segir athyglisverða sögu um árangursleysi baráttunnar gegn fíkniefnaneyzlu í landinu.
Ekki er síður merkileg sú staðreynd, að verðlag fíkniefna sveiflast ekki, þótt hald sé lagt á stóra farma af fíkniefnum í innflutningi. Það segir okkur, að innflutningurinn sé svo mikill, að ekki sjái högg á vatni, þótt tollgæzlan detti einstöku sinnum í lukkupottinn.
Fyrir nokkrum árum opnaðist svigrúm fyrir bjána, sem fóru ógætilega og létu kerfið taka sig í bakaríið. Það er eina umtalsverða breytingin, sem orðið hefur í viðskiptaheimi fíkniefna. Bjánarnir sitja nú á bak við lás og slá og hafa látið yfirvegaðri heildsölum eftir markaðinn.
Niðurstaða kosningaloforða og annarrar hræsni stjórnmálamanna er því sú, að fíkniefnamarkaðurinn heldur sínu striki með óskertu framboði og verðlagi fíkniefna, þótt upp komi fíkniefnamál, sem kölluð eru stór. Þau eru samt ekki nógu stór til að raska markaðinum.
Í ljósi þessa ástands er óhætt að kalla þá hræsnara, sem eru andvígir því, að sala ólöglegra fíkniefna verði tekin úr höndum glæpaflokka og afhent ríkisvaldinu, og segja, að slík lögleiðing fíkniefna muni auka fíkniefnaneyzlu og þar með magna óhamingju og ógæfu í landinu.
Reynslan sýnir okkur, að þvert á móti má búast við óbreyttri óhamingju og ógæfu í landinu, ef viðskiptin yrðu flutt frá glæpaflokkum til löggiltra fíkniefnasala á borð við Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins og lyfjabúðirnar í landinu. Óheft ástand verður ekki meira óheft.
Ríkið stundar sjálft verzlun með fíkniefni, sem eru verri viðureignar en sum ólöglegu fíkniefnin og sama er að segja um sum lyfin, sem afgreidd eru gegn lyfseðli samkvæmt heimild löglegra yfirvalda. Það þjónar engum tilgangi að láta annað gilda um ólögleg fíkniefni.
Með því að kippa sölunni úr höndum ólöglegra aðila og fela hana ríkinu og umboðsmönnum þess, er fótunum kippt undan glæpaflokkum, sem hvarvetna hafa reynzt þjóðfélaginu hættulegastir. Þannig missir ríkið ekki hluta af valdi sínu í hendur forríkra glæpakónga.
Baráttan gegn fíkniefnum hefur nefnilega tvíþætt gildi. Það er ekki bara mikilvægt að hamla gegn neyzlunni, heldur er líka mikilvægt að koma í veg fyrir myndun hættulegra valdamiðstöðva, sem grafa undan sjálfu þjóðskipulaginu með ógnunum og mútum og glæpum.
Þeir, sem býsnast yfir skoðunum af þessu tagi, skipa sér í flokk ómerkilegra hræsnara, sem hafa ekkert málefnalegt fram að færa til lausnar fíkniefnavandans.
Jónas Kristjánsson
DV