Fíkniefni Stóra bróður

Greinar

Ríkisvaldið ætlar að víkja frá farsælli velferðarstefnu, sem hefur virkjað félagslegt einkaframtak áhugafólks, til velferðarstefnu hins alsjáandi auga Stóra bróður. Það hefur hafnað samstarfi við áhugafélög um rekstur heimilis fyrir unga fíkniefnaneytendur.

Samtök berklasjúklinga hafa unnið kraftaverk í sinni grein. Sömuleiðis samtök um hjartavernd, samtök fatlaðra, samtök áhugafólks um áfengisvandamálið og svo mætti áfram telja. Þetta farsæla framtak hefur sparað þjóðinni milljarða, þótt ríkið hafi lagt hönd á plóginn.

Vera kann, að Stóri bróðir kunni ýmis rök fyrir, að hann þurfi sjálfur að reka heimili fyrir unglinga, sem eru illa farnir af fíkniefnaneyzlu af ýmsu tagi. Ef til vill hafa miðstýringarmenn ráðuneytisins séð, að þannig sé haldið á málum í Svíþjóð eða Noregi eða Danmörku.

Sjálfsagt má ná árangri á mismunandi hátt og með misjafnlega miklu fé skattgreiðenda. En reynslan segir okkur, að félagslegt framtak áhugafólks nær mun betri árangri fyrir minna fé. Gott dæmi er, hversu langt við erum á undan Norðurlöndum í meðferð áfengissjúkra.

Krýsuvíkursamtökin og samtökin Vímulaus æska hafa óskað eftir að fá að reka fyrirhugaða heimilið, en því hefur verið hafnað. Ráðuneytið er að hverfa frá hinni farsælu, íslenzku velferðarleið, yfir til leiðar, er hentar betur kerfiskörlum, sem vilja stjórna stóru og smáu.

Verið er að reyra þjóðfélagið í viðjar skipulags að ofan, úr ráðuneytum, opinberum stofnunum og sjóðum. Ríkið hefur reist lánakerfi, sem sogar lungann úr sparifé þjóðarinnar, auk skattfjár hennar, til endurdreifingar á vegum ríkisins, þar á meðal til góðgerðarstarfa.

Ráðuneyti, opinberar stofnanir og sjóðir eru að fyllast af embættismönnum, sérfræðingum og pólitískum kommissörum. Ódýrust eru þar möppudýrin, sem naga blýanta. Dýrari eru þeir, sem reka útþenslustefnu, er vex með hverri ríkisstjórninni á fætur annarri.

Um helgina ræddi forstjóri Byggðastofnunar í blaðaviðtali um meintan byggðavanda. Nefndi hann dæmi um, að frjáls útgerðarmaður, sem gæti landað hvar sem hann vildi, hefði efni á að kaupa 100 milljón krónum dýrara skip en sá, sem háður er einu frystihúsi.

Í 100 milljón króna mismuninum felst sparnaður þjóðarinnar af að leyfa framtaki fólksins að leggjast í farvegi, sem stjórnast af markaðsöflum. Á þann hátt og á þann hátt einan hafa þjóðir orðið ríkar á áratugunum, sem einkennast af framsókn vestræns þjóðskipulags.

Forstjóri Byggðastofnunar telur henni bera að koma í veg fyrir þennan sparnað með því að leggja fram 100 milljónir af skattfé eða sparifé landsmanna eða útlendu lánsfé til að tryggja, að afli ákveðins skips sé lagður upp hjá ákveðnu frystihúsi í ákveðnu bæjarfélagi.

Velferðarstefna ríkisvaldsins í atvinnulífinu felst einkum í að frysta búsetu í landinu, leyfa henni ekki að breytast eftir aðstæðum með sama hraða og hún hefur breytzt frá upphafi þessarar velmegunaraldar. Í því skyni hefur Stóri bróðir gert peninga að fíkniefni.

Embættismenn, sérfræðingar og pólitískir kommissarar eru á ýmsan hátt að grafa undan einkaframtaki og félagsframtaki þjóðarinnar. Þeir grýta styrkjum og lánsfé á bál Stóra bróður og eru að gera þjóðina að neytendum ódýrra peninga, fíkniefnis ríkisforsjárinnar.

Aðeins hársbreidd er milli skipulags ráðgerðs heimilis fyrir fíkniefnaneytendur og skipulags Byggðastofnunar og skyldra sjóða fyrir sjúka peninganeytendur.

Jónas Kristjánsson

DV