Fimm fréttastofur

Greinar

Gott er að hafa fimm öflugar fréttastofur í landinu. Í því felst nægileg og nauðsynleg samkeppni í fréttum. Ekki er unnt að ákveða á einum stað í landinu eða með samráði fákeppnisaðila, hvað sé fréttnæmt og hvað ekki. Í fimm fréttastofum felst valddreifing í þjóðfélaginu.

Fullburðugar fréttastofur, sem spanna allt landið og eru í föstu tölvusambandi við erlendar fréttastofur, eru á tveimur dagblöðum, DV og Morgunblaðinu, ein sameiginlega á Stöð 2 og Bylgjunni og tvær á Ríkisútvarpinu, önnur á hljóðvarpinu og hin á sjónvarpinu.

Fleiri fréttastofur eru til og taka þátt í samkeppninni, en þessar fimm skera sig úr vegna mannafla og búnaðar annars vegar og útbreiðslu hins vegar. Engin ein þeirra er ráðandi á markaðnum. Þvert á móti ríkir nokkuð gott og hagkvæmt jafnvægi milli þeirra allra.

Ríkisendurskoðun hefur nú lagt til, að fréttastofunum verði fækkað um eina með sameiningu hljóðvarps og sjónvarps á þessu sviði. Hún leggur til, að ríkisvaldið grípi með handafli sínu inn í markaðinn og reyni að spara með því að sameina sínar tvær fréttastofur.

Verið getur, að ekki sé rúm fyrir fimm fréttastofur í landinu. Það er hlutverk markaðarins að ákveða slíkt. Ef ríkið seldi fjölmiðla sína, kæmi í ljós, hvort markaðurinn í landinu stendur undir fimm fréttastofum. Með handafli Ríkisendurskoðunar kemur slíkt ekki í ljós.

Ef ríkisvaldið fer að tillögu Ríkisendurskoðunar, hlýtur fjölmiðlun í landinu að færast sem því nemur í átt til hinnar skaðlegu fákeppni, sem ríkir á allt of mörgum sviðum í landinu, svo sem hjá bankastofnunum, tryggingafélögum, olíufélögum og flugfélögum.

Vegna fámennis þjóðarinnar hefur reynzt erfitt að halda uppi heilbrigðri samkeppni margra fyrirtækja, sem er hornsteinn valddreifðs markaðsbúskapar í lýðræðisríkjum Vesturlanda. Vont er, ef ríkið hyggst með handafli hafa forgöngu um að draga úr samkeppni.

Fleiri blikur eru á lofti en skaðleg tillaga Ríkisendurskoðunar. Á vegum Þjóðvaka hefur verið lagt fram þingmál, er felur í sér anga af hinni sívirku forræðishyggju, sem einkennir íslenzka stjórnmálamenn umfram stjórnmálamenn nágrannaríkjanna í austri og vestri.

Samkvæmt hugmynd Þjóðvaka þarf Alþingi að skilgeina og skipuleggja fjölmiðlun og fjölmiðla í landinu, væntanlega á þeim forsendum, að fjölmiðlarnir séu valdastofnanir, sem hið sívakandi ríkisvald þurfi að hafa auga með og fela einhver hlutverk innan kerfisins.

Við sjáum fyrir okkur margvíslegar fleiri útfærslur á forræðishyggju af þessu tagi. Hugsanlega vildu stjórnmálamenn reyna að skilgreina og skipuleggja skipafélög og fela þeim einhver hlutverk, sem stjórnvöldum finnst æskileg, fram hjá venjulegum markaðslögmálum.

Bjálfaleg lög af þessu tagi geta orðið atvinnuskapandi fyrir vandamálasérfræðinga af ýmsu tagi, sem geta fengið vinnu við eftirlits- og úttektarstofnanir, er komið yrði á fót til að tryggja framgang forræðishyggjunnar. En þau mundu skerða samkeppnishæfni atvinnugreinanna.

Yfirgnæfandi markaðshlutdeild í útgerð kaupskipa getur framkallað valdastöðu, sem kann að vera áhyggjuefni á markaðnum. Hins vegar er vandséð, að neitt lagist við, að vandamálasérfræðingar komi til skjalanna, vopnaðir lögum og reglugerðum forræðissinna.

Ríkisvaldið á að forðast aðgerðir, sem fela í sér minni samkeppni á markaði og meiri tilraunir ríkisins til afskipta og áhrifa á gang mála á óviðkomandi sviðum.

Jónas Kristjánsson

DV