Ákvörðun utanríkisráðherra ríkja Efnahagsbandalagsins um að fækka í sendiráðum sínum í Líbýu og líbýskum sendiráðsmönnum í Vestur-Evrópu stefnir í rétta átt, en gengur ekki nógu langt. Réttast væri að leggja alveg niður stjórnmála- og viðskiptasambandið.
Auðvitað dugir ekki að berjast gegn hryðjuverkum, meðan vestrænir bankar fjármagna Líbýu á erfiðum tímum lágs olíuverðs, bandarísk fyrirtæki framleiða líbýsku olíuna og evrópsk fyrirtæki kaupa hana. Við slíkar aðstæður felst engin lexía í loftárásaræfingu.
Raunar ættu vestræn ríki að sameinast um afnám stjórnmála- og viðskiptasambands við stjórnir, sem valda mestum vandræðum á alþjóðavettvangi. Einnig ættu vestræn mannréttindaríki að sameinast um sömu aðgerðir gegn ríkisstjórnum verstu mannréttindabrota.
Atlantshafsbandalagið er kjörinn vettvangur sameinaðra aðgerða í stjórnmálum og viðskiptum gegn stjórnum, sem halda uppi hryðjuverkum í útlöndum. Á svipaðan hátt gætu Norðurlandaráðsríkin safnað um sig fylgi til slíkra aðgerða gegn mannréttindabrotum.
Eins og ástandið er í heiminum um þessar mundir, þýðir lítið að beita aðgerðum gegn öllum brotlegum ríkisstjórnum. Nauðsynlegt er að velja fáar ríkisstjórnir, úr ýmsum áttum og af ýmsum tegundum, svo að þær eigi erfiðara um vik að sameinast um gagnaðgerðir.
Hér skalt bent á fimm ríkisstjórnir, sem skara fram úr í ógeðfelldu og siðlausu atferli heima fyrir og erlendis. Stjórn hins mikilláta Kaddafis í Líbýu kemst ekki á þá skrá, því að hinar eru verri. Það eru stjórnirnar í Íran, Sýrlandi, Chile, Eþíópíu og Indónesíu.
Íranstjórn liggur í augum uppi. Hún stendur undir hvers kyns glæpum hryðjuverkamanna úti um heim. Enn verri eru þó glæpir Khomeinis erkiklerks gegn borgurum eigin lands. Á vegum hans eru rekin ein villimannlegustu og illræmdustu fangelsi jarðarinnar.
Stjórn Assads er einnig í fremstu röð, einkum í skipulagningu hryðjuverka í öðrum löndum. Bæði Assad og Khomeini eru á því sviði stórvirkari en Kaddafi í Líbýu. Auk þess hefur Assad nokkrum sinnum stundað fjöldamorð á íbúum sumra borga í eigin landi.
Stjórn Pinochets í Chile er sérlega mikilvæg á þessum lista, af því að Bandaríkin báru upprunalega ábyrgð á henni. Enn meira máli skiptir, að vestræn slit stjórnmála- og viðskiptasambands við Pinochet yrðu aðvörun til annarra valdaþyrstra herforingja þar í álfu.
Herforingjar hafa á undanförnum árum misst völdin í hverju ríki Rómönsku Ameríku á fætur öðru, eftir ljótan feril ógnar og óstjórnar. Það gæti dregið úr valdafíkn þeirra, ef þeir vissu, að byltingarstjórnir þeirra yrðu hvergi viðurkenndar í hinum siðaðri hluta heims.
Eþíópíustjórn er sjálfkjörin í þennan fimm stjórna hóp. Mengistu hefur framleitt í landinu heimsins verstu hungursneyð á síðustu árum, þvælist þar á ofan fyrir hjálparstarfi og rekur ýmist hernað eða miskunnarlausar brottflutningsofsóknir gegn borgurum landsins.
Síðasta stjórnin er stjórn Suhartos í Indónesíu. Sá herforingi er langsamlega mikilvirkasti fjöldamorðingi, sem nú er á lífi, og þar á ofan næstmesti þjófur heims á eftir Marcosi, sem réð Filippseyjum til skamms tíma. Hann hefur of lengi mergsogið fjölmenna þjóð sína.
Hér er lagt til, að Vesturlönd, þar á meðal Ísland, slíti viðskipta- og stjórnmálasambandi við þessar fimm ríkisstjórnir og falli frá viðurkenningu á þeim.
Jónas Kristjánsson
DV