Bandaríkjamenn eru 5% af íbúum jarðar og bera ábyrgð á 25% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Að mati George Bush Bandaríkjaforseta er þetta afar fátæk þjóð, sem hefur ekki efni á að taka til hendinni í þessu efni. Vísar hann í staðinn á auðþjóðir Indlands og Kína.
Bush hefur dapurlegt veganesti með sér á ferð sinni um Evrópu. Ríkisstjórn hans hefur á skömmum tíma kippt Bandaríkjunum úr forustu vestrænna ríkja fyrir margvíslegum framförum í heiminum, þar á meðal í baráttunni gegn aukningu gróðurhúsalofttegunda.
Sinnaskiptin vestra stafa ekki af nýjum vísindum. Þvert á móti hefur Vísindaráð Bandaríkjanna nýlega staðfest þær niðurstöður vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá í vetur, að loftslag og veðurfar á jörðinni sé af mannavöldum að breytast á afar skaðlegan hátt.
Á hvern íbúa eru Evrópubúar ekki nema hálfdrættingar á við Bandaríkjamenn í þessum sóðaskap, en vilja fyrir sitt leyti taka til hendinni. Ríkisstjórnir Evrópu hafa gagnrýnt stefnubreytingu Bandaríkjaforseta, sem gengur þvert á yfirlýsingar hans í kosningabaráttunni.
Ráðgert hafði verið, að árið 2002 mundu aðildarríki Kyoto-sáttmálans frá 1997 vera búin að staðfesta hann. Evrópuríkin segjast enn vera reiðubúin til þess, þótt Bandaríkin hafi ákveðið að vera utangarðs með tveimur öðrum sóðaríkjum, sem heita Ástralía og Ísland.
Í rauninni eru hagsmunir olíufélaga í Texas, heimaríki Bush, að baki sinnaskipta forsetans. Að yfirvarpi er þó haft, að bandarískt atvinnulíf hafi ekki ráð á hreinsun og að ósanngjarnt sé að undanskilja fjölmenn ríki á borð við Indland og Kína frá fyrstu aðgerðum í málinu.
Í Kyoto var þó litið þannig á málið, að núverandi mengun andrúmsloftsins væri einkum gömlu iðnríkjunum að kenna. Því bæri þeim að taka til hendinni í fyrstu umferð. Í annarri umferð aðgerðanna kæmu svo þróunarlöndin, sem eru nýlega byrjuð að menga andrúmsloftið.
Kyoto-sáttmálinn er engin fyrirmyndarlausn, heldur niðurstaða langvinns samningaþjarks með þátttöku Bandaríkjanna. Sum atriði hans verða erfið í framkvæmd. Hann átti bara að vera fyrsta skrefið til stöðvunar á mengun andrúmsloftsins. Fleiri skref áttu að fylgja.
Það er svo alveg nýtt fyrir mönnum, að Bandaríkjamenn séu svo fátækir, að þeir hafi ekki sömu efni og aðrir á að hreinsa eftir sig skítinn. Auðvitað verður hver þjóð fyrir sig að meta, hvort hún hafi komizt í álnir eða ekki, en óneitanlega leggst lítið fyrir kappann.
Bush Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að taka ekki frekar mark á Vísindaráði Bandaríkjanna en á vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur ákveðið að leggja ekki fram tillögur um betri lausn á málinu en fólst í Kyoto-sáttamálanum. Hann kemur berhentur til Evrópu.
Það eina, sem hann hefur til málanna að leggja, er að skipa enn einu sinni nefnd og reyna að finna, hvernig hægt sé að fá fyrirtæki til að laga stöðu sína á sjálfviljugan hátt. Meðan hann fer undan í flæmingi, versnar ástand heimsins stöðugt vegna bandarískrar mengunar.
Í kjölfar ákvörðunar forsetans er eðlilegt, að Evrópa setji mengunarskatt á bandarískar vörur, svo að þær njóti þess ekki á markaði að vera framleiddar á ódýrari og sóðalegri hátt en evrópskar vörur. Skattinn má svo nota til róttækari aðgerða gegn mengun andrúmsloftsins.
Valdataka Bush í Bandaríkjunum er áfall fyrir allt mannkyn og sérstaklega fyrir Vesturlönd, sem eru orðin höfuðlaus her síðan Bandaríkin hurfu inn í skelina.
Jónas Kristjánsson
DV