Harry’s við hlið hótels Reykjavíkur við Rauðarárstíg hafði farið fram hjá mér í hálft annað ár. Lítill og snyrtilegur, líklega eini Filippseyjastaður borgarinnar. Fór þangað loksins í gær og fékk fyrirtaks sýnishorn af hefðum Filippseyja í matargerðarlist. Maturinn var sterkur og snarpheitur, mikið chili-kryddaður og ekki ofeldaður. Laus við amerísk áhrif í óhófsfitu. Þunnsneitt svínakjöt með léttsteiktu grænmeti í ostrusósu var fínt, einnig vorrúllur með hrásalati og chili-sósu. Matseðillinn er stuttur og meðalverð rétta um 2100 krónur. Einnig var þjónustan góð. Kem þarna örugglega aftur.