Í gamla daga fór ég í Kassagerðina og keypti kassa, þegar ég þurfti. Það var enginn vandi. Svo komu til sögu markaðsfræðingar, sem litu á viðskipti sem lausn vandamála. Nafni Kassagerðarinnar var breytt í Umbúðalausnir. Eins og umbúðir væru vandi. Nafni rakarastofu var breytt í Hárlausnir og tölvubúðar í Tölvulausnir. Vantaði bara Fiskilausnir og Buxnalausnir. Svo liðu tímar og menn föttuðu ruglið. Nú heitir Kassagerðin bara Kassagerðin og allir rata þangað. Datt það í hug, þegar ég las, að einhver hugsaði ekki í vandamálum, bara lausnum. En til að hugsa í lausnum, þarf að líta á lífið sem vandamál.