Fiskur er ekki eign skipa

Greinar

Á ferðinni til evrópskrar efnhags- og viðskiptasamvinnu er nauðsynlegt fyrir okkur að skilgreina eignarhald á auðlindum í 200 mílna efnahagslögsögu landsins. Ef fiskurinn í sjónum er formlega skilgreindur sem þjóðareign, verður þessi ferð okkar ekki eins þungbær.

Deilt er um lög, sem ríkislögmaður segir, að banni óbeina eignaraðild útlendinga að sjávarútvegsfyrirtækjum, þannig að Olís megi ekki eiga í Granda, ef útlendur aðili er hluthafi í Olís. Sumir segja, að ekki sé að marka þetta álit og aðrir, að þetta sé ekki framkvæmanlegt.

Fjármálaráðherra segist vilja breyta þessum lögum, svo að þau samræmist skuldbindingum, sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið leggur á herðar okkur. Aðrir benda á þetta sem rök fyrir því, að Alþingi eigi ekki að staðfesta þennan evrópska samning.

Vandamálið mun rýrna, ef farið er eftir tillögum um kerfi veiðileyfa eða auðlindaskatts, sem hagfræðingar í Háskóla Íslands og Seðlabankanum hafa lagt til, auk fjölda annarra manna, sem fjallað hafa um málið. Tillögurnar vernda um leið auðlindina fyrir útlendingum.

Með tillögum um veiðileyfi er alveg skilið á milli verðmætis í óveiddum fiski annars vegar og í fiskiskipum og fiskvinnslustöðvum hins vegar. Í núverandi kvótakerfi er aftur á móti samhengi í þessu verðmæti, sem hefur leitt til, að kvóti gengur kaupum og sölum.

Ef auðlindin er skilgreind sem þjóðareign, kemst hún ekki í hendur útlendinga, þótt þeir eigi beint eða óbeint í skipum, sem sækja um leyfi eða bjóða frjálst í leyfi til að veiða fisk úr þjóðareigninni og borga fyrir það auðlindaskatt, veiðileyfagjald eða frjálst uppboðsverð.

Við slíkar aðstæður ætti ekki að vera stærra mál fyrir Íslendinga, að útlendir aðilar eigi beint eða óbeint í fiskiskipum eða fiskvinnslustöðvum, en það er nú, að þeir eiga í öðrum fyrirtækjum, svo sem innlendum olíufélögum. Þeir eignast ekki sjálfa auðlindina.

Það er auðlindin sem slík, er gerir sjávarútveginn sérstakan meðal atvinnuvega. Hún gerir okkur viðkvæmari fyrir erlendri ásælni í sjávarútveg en í aðra atvinnuvegi. Það er hún, sem við eigum einkum að verja, en ekki eignarhald í skipum og vinnslustöðvum.

Þeir aðilar, sem hafa peningalega hagsmuni af kaupum og sölum á kvótum til fiskveiða, hafa ekki mátt heyra minnzt á veiðileyfi eða auðlindaskatt. Þetta eru einkum eigendur útgerðarfyrirtækja, sem telja sér hag í, að núverandi kvóti er miðaður við skipin þeirra.

Hagsmunir skipaeigenda hafa hingað til ráðið ferðinni, þótt hin hagfræðilegu rök hafi nánast eingöngu verið á hinn veginn, með veiðileyfakerfi. Þessir hagsmunir verða að víkja, ef við ætlum að taka þátt í viðskipta- og efnahagssamvinnu á evrópskum vettvangi.

Ef þjóðin á auðlindina, það er að segja hinn óveidda fisk, eru það ekki fiskiskipaeigendur, sem eiga hana. Þá verða erlend afskipti af sjávarútvegi ekki stærra mál en erlend þátttaka í öðrum atvinnuvegum, hvort sem um er að ræða peningaframlag eða vinnuframlag.

Margir vilja að vísu ekki, að erlendir aðilar fái vinnu hér á landi í samkeppni við Íslendinga eða að þeir nái áhrifum í innlendum fyrirtækjum. Þeir vilja því líklega ekki, að Ísland gerist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og skuldbindinum, sem óneitanlega fylgja aðildinni.

Með skilgreiningu auðlinda sjávar verður sjávarútvegurinn hluti af þeim almenna vanda og hættir að vera sérstakur og flóknari vandi á Evrópuferð okkar.

Jónas Kristjánsson

DV