Góð veitingahús finnast utan 101. Langt uppi í sveit, í 104, er afskekktur Laugaás. Þar hefur Ragnar Guðmundsson staðið vaktina í 34 ár. Eitt fárra fiskhúsa landsins, þar sem hægt er að fá ýmsan fisk dagsins í hefðbundinni matreiðslu. Hin fiskhúsin eru Þrír Frakkar Úlfars Eysteinssonar, Tilveran í Hafnarfirði og tvær fiskbúðir. Í Laugaási fengum við í hádeginu hveitilausa Thai súpu með beikoni, bláskel úr Keflavík og indælis þorsk. Súpa og einn sex rétta dagsins kostaði 1800 krónur. Svo er Laugaás heimilislegt bistró. Ýmis matarhús, sem kenna sig við fisk, hafa bara einn fiskrétt dagsins.