Veitingastofan Dill kúrir notalega í kaffistofu Norræna hússins. Norrænt smart með svörtu gólfi og svörtum stólum, hvítum dúkum og teiknipappír á borðum. Risagluggar veita fínt útsýni yfir miðbæinn í hádeginu. Þá er súpa á 850 krónur, salat á 950 krónur og fiskur dagsins á 1.700 krónur. Súpan var kúmenkryddaður gulrótagrautur. Fiskurinn var soðinn þorskur undir ostþaki með lauk og fenniku og hýðiskartöflum, borinn fram í potti. Fín matreiðsla borin fram af fínni þjónustu. Gunnar Karl og Ólafur Örn heita fagmennirnir. Hafa líka opið þrjú kvöld í viku. Þá er dýr lúxusmatur, meira um það síðar.