Fiskverð er í ógöngum.

Greinar

Af blaðaummælum er ekki ljóst, hverjir sáu mestan kost eða löst á nýju fiskverði áramótanna, þeir tveir, sem sátu hjá í yfirnefndinni, sá sem studdi oddamann ríkisstjórnarinnar eða sá, sem greiddi atkvæði á móti.

Hins vegar er ljóst, að maðkar eru í mysunni, þegar aðeins einn af fjórum meðnefndarmönnum oddamannsins styður niðurstöðuna. Enda er æ fleirum að verða ljóst, að pólitísk nefndarákvörðun fiskverðs hefur gengið sér til húðar.

Nærri allir, ef ekki allir yfirnefndarmenn voru sammála um, að óheppilegt væri að auka niðurgreiðslur á olíu til fiskiskipa, og bentu á aðrar betri leiðir að sama marki. Samt fór svo, að niðurgreiðslur voru auknar.

Fyrir áramót var útgerðinni gefinn fimmti hver olíulítri. Eftir áramót er henni gefinn þriðji hver olíulítri. Þessi breyting er andstæð stefnu orkusparnaðar. Hún leiðir til meiri olíunotkunar á hvert fiskkíló en ella væri.

Eftir því sem olíukostnaður verður þungbærari á að nota slíkar millifærslur til að draga úr olíunotkun, en ekki til að halda henni við. Að minnsta kosti er nauðsynlegt að hafa þær óháðar olíunotkun, svo að þær magni ekki sóun.

Í nefndinni hafði verið bent á óháða leið af því tagi, það er álag á fiskverð, sem fiskvinnslan greiddi útgerðinni framhjá hlutaskiptum, alveg eins og niðurgreiðsla olíunnar, með tilsvarandi útflutningsgjaldi, er framkjá þeim.

Verið getur, að fulltrúum sjómanna þyki ekki eins hart aðgöngu, að verðmæti séu flutt framhjá hlutaskiptum með þeim dapurlega hætti, sem varð ofan á. En ummæli þeirra benda ekki til, að þeir láti blekkja sig í þessu.

Auðvitað er skynsamlegt, að aukið vægi olíu í kostnaði sjávarútvegs endurspeglist á einhvern hátt. En heilbrigðara er að gera það í nýjum hlutaskiptum útgerðar og sjómanna en í auknu framhjáhaldi undir stjórn ríkisvaldsins.

Árið 1976 var þetta framhjáhald komið í ógöngur með 16% utan skipta. Þá keyptu sjómenn af sér sjóðafarganið með um 4% lækkun skiptaprósentu. Nú er farganið komið upp í 9,5% og kominn tími til að færa það aftur inn í hlutaskiptin.

Að vísu er nauðsynlegt að minna á í leiðinni, að ráðstafanir yfirnefndar, þar á meðal um framhjáhaldið, væru algerlega ónauðsynlegar, ef svo sem þrjátíu dýrustu skipin væru tekin úr umferð, svo að aflinn dreifðist á færri skip.

Hið eina jákvæða við þessa nýjustu ákvörðun fiskverðs er, að dálítið er breikkað verðbilið milli fyrsta, annars og þriðja flokks fisks, slægðs og óslægðs, stórs og lítils. Þannig færði yfirnefndin sig nær raunvirði.

Eftir breytinguna er verðmunurinn samt of lítill. Áfram mun skorta nægilegt samhengi milli gæða og verðs. Netabátar munu til dæmis áfram koma að landi með tveggja nátta fisk og skuttogarar með tveggja vikna fisk.

Ekkert hefur heldur verið gert af hálfu stjórnvalda til að fjölga leyfum til beinnar sölu á ísfiski í útlöndum, svo að betri samanburður fáist milli verðs yfirnefndar og ýmiss þess verðs, sem frjáls markaður vill greiða í útlöndum.

Leiðin út úr ógöngum fiskverðsins er annars vegar að veita frelsi til sölu á ísfiski í útlöndum og hins vegar að koma hér heima á hliðstæðum markaði fyrir fisk upp úr sjó og beitt er með góðum árangri í öðrum löndum.

Jónas Kristjánsson

DV