GÚRKUTÍÐIN HEFUR GERT forsætisráðherra svo frægðarheftan, að hann stígur fram á tröppur Stjórnarráðsins með þau sorgartíðindi, að Hvannadalshnjúkur hafi lækkað um níu metra.
NÆST SENDA SPUNAKERLINGARNAR hann í drag-búningi í Gay Pride skrúðgönguna, og láta hann síðan keppa í fiskibolluáti í fiskiveizlunni á Dalvík. Svo er auðvitað létt að láta hann lesa upp fréttir á hverjum morgni á tröppunum.
ÞETTA ERU EKKI GÓÐIR TÍMAR fyrir athyglisþörf í stjórnmálum. Áhugi fólks beinist ekki lengur að stjórnmálamönnum, en snýst í auknum mæli um aðrar hetjur, til dæmis þá, sem eru í fjármálavíkingi í öðrum löndum eða bera af í sviðsljósinu.
GENGISLÆKKUN STJÓRNMÁLANNA byggist á velgengni manna á öðrum sviðum. Unga fólkið sækist ekki eftir frama í stjórnmálum, heldur leitar fanga á öðrum sviðum. Komist stjórnmálamenn í færi í bisness, stökkva þeir strax og fá enga heimþrá.
ÞANNIG FÓR ÁSDÍS HALLA Bragadóttir úr bæjarstjórastól í Garðabæ yfir í Byko, Sveinn Andri Sveinsson úr borgarmálum Reykjavíkur yfir í harðan lögmannapraksís og þannig er Ásgeir Friðjónsson að gefa eftir þingsæti til að geta unnið fyrir Björgólfana.
PENINGAR ERU ANNARS STAÐAR en í pólitík og frægð er annars staðar en í pólitík. Helzt eru það völdin, sem halda mönnum við efnið, en einkavæðing hefur dregið úr getu pólitíkusa til að ráðskast með hagi fólks.
ÞESS VEGNA ER HAFINN fréttalestur á tröppum Stjórnarráðsins.
DV