Fjandmenn fallast í faðma

Greinar

Jarðskjálftarnir í Tyrklandi og Grikklandi hafa breytt gagnkvæmum viðhorfum þjóðanna. Grikkir sendu hjálparsveitir til Tyrklands og síðan sendu Tyrkir hjálparsveitir til Grikklands. Tyrki hefur boðið slösuðum Grikkja nýra sitt og annað boð farið í hina áttina.

Grikkir og Tyrkir eru aldagamlir fjandmenn, enda ráða Tyrkir hinum forna Miklagarði og miklu landi í Anatólíu, sem áður tilheyrði honum. Snemma á þessari öld var hatrið svo mikið, að fram fóru gagnkvæmar þjóðahreinsanir beggja vegna landamæranna.

Kýpurdeilan hefur verið óleyst áratugum saman og oft verið ófriðlegt í sundunum milli eyja Grikkja og meginlands Tyrkja. Nató hefur löngum haft áhyggjur af þessum aðildarríkjum sínum. Og Grikkir hafa brugðið fæti fyrir inngöngu Tyrkja í Evrópusambandið.

Ísinn var brotinn fyrir nokkrum árum, þegar gríska leikkonan Melina Mercouri heimsótti Miklagarð sem menntaráðherra Grikkja í tilefni alþjóðaþings ritstjóra. Fram að þeim tíma höfðu ráðamenn ríkjanna ekki stundað gagnkvæmar kurteisisheimsóknir.

Með nýjum valdamönnum fraus ástandið á nýjan leik, þótt ekki syði upp úr. En jarðskjálftarnir hafa sýnt, að undir frostinu var jarðvegurinn reiðubúinn til sáningar. Hafnar eru gagnkvæmar birtingar greina ritstjóra og dálkahöfunda um samskipti þjóðanna tveggja.

Komið hefur í ljós, að hjá almenningi er jafn auðvelt að rækta ást og hatur. Er ráðamenn á ýmsum sviðum fara af annarri sveifinni og leggjast á hina, fylgir fólkið með. Sameiginlegt skipbrot á borð við hörmungar jarðskjálfta kemur svo friðarferli á fljúgandi skrið.

Allt er þetta brothætt. Til valda geta komizt stjórnmálamenn á borð við Milosevic í Serbíu, sem nærist á því að magna þjóðernisofstæki og nágrannahatur kjósenda. Við sjáum af því dæmi, hversu auðvelt er að trylla heila þjóð til brjálæðislegra ódæðisverka.

Grikkir og Tyrkir hafa verið heppnari en Serbar, þótt ýmis ljón hafi verið á vegi þeirra. Grikkir hafa stutt óhæfuverk Serba gegn Albönum í Kosovo, en Tyrkir hafa stutt varnir Albana. Þá hafa Tyrkir stundað grimmdarlegar ofsóknir gegn minnihlutahópi Kúrda.

Hvorug þjóðin getur talizt til engla, nema síður sé. Samt hefur verið jarðvegur fyrir hina skyndilegu þíðu milli þjóðanna, þegar þær eru farnar að hjálpast að í erfiðleikum sínum, rétt eins og Norðurlandaþjóðir mundu gera. Hið góða blundar undir vetrarfrosti.

Mikilvægt er, að önnur ríki Atlantshafsbandalagsins stuðli að þessu með því að sýna, að friður borgi sig frekar en ófriður. Það hefur um skeið og verður enn um sinn höfuðverkefni bandalagsins að tryggja evrópskan frið um allan Balkanskaga og alla Anatólíu.

Með betri samskiptum verður síðan hægt að gera pólitísk hrossakaup um stöðu Kúrda í Tyrklandi annars vegar og aðild Tyrkja að Evrópusambandinu hins vegar. Slík hrossakaup mundu marka þau tímamót, að loksins yrði varanlegur friður um gervalla Evrópu.

Ýmis Evrópuríki, einkum Spánverjar, hafa mikla og góða og nýlega reynslu af sáttum við minnihlutahópa í landinu. Slíka reynslu ættu Tyrkir að geta notfært sér í samskiptum við Kúrda og fengið þar með hinn eftirsótta aðgöngumiða að forríku Evrópusambandi.

Ekkert er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Jarðskjálftarnir í Tyrklandi og Grikklandi hafa opnað leið til evrópsks friðar og vestrænnar farsældar.

Jónas Kristjánsson

DV