Fjárdráttur tempraður

Greinar

Í tillögum fjármálaráðherra um breytta tilhögun ríkisfjármála er jákvæðust hugmyndin um að banna fjárdrátt ráðherra. Er ætlun hans að leggja fram fjáraukalög í haust, svo að Alþingi geti þá þegar tekið afstöðu til ýmissa áforma ráðherra um útgjöld umfram fjárlög.

Með orðinu fjárdráttur er átt við það, sem nefnist aukafjárveitingar á tungumáli stjórnmálamanna og embættismanna. Það eru útgjöld, sem ráðherrar stofna til, án þess að hafa til þess heimild frá fjárveitingavaldinu, sem samkvæmt stjórnarskránni er hjá Alþingi.

Athyglisvert er, að foringjar þjóðarinnar í stjórn og stjórnarandstöðu eru enn svo gegnsýrðir af spillingunni, að þeir tala um fjárdráttinn sem “aukafjárveitingar”, eins og einhver laga- eða stjórnarskrárréttur sé að baki þeirra. Þetta hefur oft verið gagnrýnt hér í blaðinu.

Þannig talar fjármálaráðherra um afnám “aukafjárveitinga” þessa dagana. Það gerir líka formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Það gerir einnig formaður stærsta stjórnarþingflokksins. Og ennfremur talar þannig formaður fjárveitinganefndar Alþingis.

Ráðherrar hafa í vaxandi mæli seilst í ríkissjóð til að þjóna ýmsum sérhagsmunum. Stundum þykir þeim henta að krydda hátíðaræður með því að gefa peninga eða fasteignir í óleyfi. Stærri upphæðir nota þeir þó til að verða við kröfum gæludýra á borð við landbúnað.

Stundum ganga þeir svo langt að þeir úthluta peningum, sem Alþingi hefur fjallað um og hafnað að veita. Á þann hátt voru 625 milljónir króna dregnar af fé skatt greiðenda á síðasta ári, beinlínis gegn vilja fjárveitinga valdsins, sem samkvæmt stjórnarskrá er hjá Alþingi.

Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar ákváðu ráðherrar samtals 2,5 milljarða fjárdrátt á fyrri hluta þessa árs. Þetta er veigamesta orsök þess, að greiðsluafgangur, sem átti að vera 600 milljónir samkvæmt fjárlögum, snerist í fjögurra milljarða halla á miðju ári.

Það er því við hæfi, að fjármálaráðherrann, sem lengst allra slíkra hefur gengið í fjárdrætti af þessu tagi, skuli nú hafa forgöngu um, að mikilvægar skorður verði settar við því í framtíðinni. Ástæða sinnaskiptanna er, að fyrra háttalag hefur komið ríkissjóði á vonarvöl.

Sá galli er á gjöf Njarðar, að Alþingi á erfitt með að hafna útgjöldum, sem þegar hafa verið innt af hendi að verulegu leyti. Þess vegna hefur formaður fjárveitinganefndar sagt, að framvegis muni verða reynt að hindra slík útgjöld, nema Alþingi fjalli um þau fyrst.

Hér í blaðinu hefur verið lagt til, að á þingtíma verði ekki veitt fé umfram fjárlög, nema að undangengnum fjáraukalögum hverju sinni, en að á sumrin nægi bráðabirgðaheimild frá fjárveitinganefnd Alþingis, sem síðan verði staðfest með fjáraukalögum strax að hausti.

Svo virðist sem þingmenn séu smám saman að komast á þá skoðun, að einhverjar slíkar skorður verði að setja ólöglegu bruðli ráðherra. Sumir vilja raunar ganga lengra og er það góðs viti. Líklega hefur þingmönnum loks ofboðið hömlulaust sukk núverandi ríkisstjórnar.

Breytt ytra form lagar ekki innihaldið að fullu, því að Alþingi er veikt fyrir sérhagsmunum eins og ráðherrarnir. En flóknari leið fjárútláta gegnum kerfið mun áreiðanlega tempra villtustu óskir ráðherra og gæludýra þeirra um herfang í garði skattgreiðenda.

Góður árangur næst fyrst með hugarfarsbreytingu stjórnmálamanna, sem mun sjást, þegar þeir hætta að tala um fjárdrátt ráðherra sem “aukafjárveitingar”.

Jónas Kristjánsson

DV