Í skýrslu sérfræðinga á vegum forsætisráðuneytisins segir, að til séu hér á landi fjárhús yfir 1.142 þúsund fjár og að sauðfé þurfi að fækka úr 714 þúsund í 400-460 þúsund. Þessar tölur gefa gott dæmi um offjárfestinguna og offramleiðsluna í hinum hefðbundna landbúnaði.
Ef við lítum sérstaklega á offjárfestinguna í fjárhúsum, þá er hún 60% meiri en sem svarar fjölda fjár í landinu og allt að 185% meiri en sem svarar þeim fjölda, sem ætti að vera að mati skýrslugerðarmanna. Þetta er miklu meiri offjárfesting en menn hafa gert sér grein fyrir.
Samkvæmt tölum skýrslunnar er sauðfé í landinu allt að 80% fleira en vera ætti. Þar kemur fram hin hliðin á vandamálinu. Offjárfestingin í hinum hefðbundna landbúnaði leiðir til offramleiðslu, sem kostar þjóðfélagið uppbætur, niðurgreiðslur og margvíslega aðra styrki.
Annað dæmi um offjárfestinguna í hinum hefðbundna landbúnaði eru graskögglaverksmiðjurnar. Þeim hefur fjölgað, þótt þær hafi safnað birgðum allt frá árinu 1977. Síðast var reist slík verksmiðja árið 1983. Sumar þeirra eiga enn óselda nokkurn veginn alla framleiðsluna frá í fyrra.
Leggja þarf til stofnkostnað verksmiðjanna af einkar takmörkuðu fjármagni þjóðarinnar. En þar með er ekki öll sagan sögð. Á lánsfjárlögum þessa árs er heimild til 24 milljón króna lántöku handa verksmiðjunum, svo að unnt sé að halda áfram að framleiða óseljanlega vöru.
Ef marka má af annarri reynslu frá hinum hefðbundna landbúnaði, má reikna með, að lánunum verði breytt í styrki, þegar gjaldþrotið blasir við. Til slíks hefur Framleiðsluráð landbúnaðarins fengið nægilegt fjármagn eftir mikla stækkun kjarnfóðursjóðsins umdeilda.
Samkvæmt lánsfjáráætlun þessa árs er ráðgert, að samtals verði fjárfestur heill milljarður í landbúnaði. Obbinn af því fé fer í hefðbundna landbúnaðinn og stuðlar að þörfinni á uppbótum, niðurgreiðslum og margvíslegum öðrum styrkjum á næstu árum og áratugum.
Milljarður ársins sýnir, að offjárfestingin í hinum hefðbundna landbúnaði er ekki vandi frá gömlum tíma, heldur böl, sem haldið er við frá ári til árs með nýrri fjárfestingu. Sem dæmi má nefna, að síðan 1960 hafa verið reist fjárhús yfir fleira fé en rúm er fyrir í landinu.
Samkvæmt áðurnefndri skýrslu, sem gerir ráð fyrir, að rúm sé fyrir 400-460 þúsund fjár í landinu, hafa frá 1960 verið byggð fjárhús yfir 557 þúsund fjár eða allt að 40% umfram það, sem skýrslugerðarmennirnir telja vera heildarþörf landbúnaðarins á þessu sviði.
Þjóðina skortir fjármagn til byggingar íbúða og til nýrra atvinnugreina á borð við fiskeldi og tölvutækni. Á síðustu misserum hefur pólitíkin farið nokkrum sinnum á hvolf út af húsnæðisvandræðunum. Jafnframt eru nýju atvinnugreinunum skammtaðir smáaurar úr hnefa.
Á sama tíma siglir hinn hefðbundni landbúnaður fram í sjálfvirkri fjárfestingu. Ofan á allt forréttindafjármagnið, sem þessi grein hefur setið að, bætist nú við stórfé í kjarnfóðursjóði. Þess vegna má búast við, að úrelt atvinnugrein efli fjárfestingu sína á næstu árum.
Fjárhúsin og graskögglaverksmiðjurnar eru aðeins tveir af mörgum flokkum minnisvarða um brennslu íslenzks sparifjár og um skuldasöfnun þjóðarinnar í útlöndum. Hinn hefðbundni landbúnaður er í heild skólabókardæmi um, í hvaða veizlur þjóð á ekki að verja peningum sínum.
Jónas Kristjánsson.
DV