Fjarlægt ljós ­ vonarglæta

Greinar

Samskipti heimsveldanna hafa í sumar orðið minna fjandsamleg en þau hafa verið um langt skeið. Þeir Gorbatsjov og Reagan hafa sent hvor öðrum bréf, sem miða annars vegar að öðrum fundi þeirra í vetur og hins vegar að árangri í takmörkun vígbúnaðar.

Í bréfi Gorbatsjovs frá 23. júní lagði hann til, að geimvarnavopn yrðu ekki sett upp næstu 15 árin að minnsta kosti. Í svarbréfi Reagans frá 25. júlí féllst hann á, að slík vopn yrðu ekki sett upp næstu 5­7 árin. Telja má, að samkomulag eigi að geta náðst um 10 ára frestun.

Þá hafa báðir aðilar slegið fram svipuðum hug myndum um 30­50% fækkun kjarnorkueldflauga eða kjarnaodda. Þeir munu nú vera um 10.000 eða fleiri, svo að full ástæða er til grisjunar. Telja má, að samkomulag eigi að geta náðst um 35% fækkun í áföngum.

Ekki skiptir minna máli, að Gorbatsjov og aðrir fulltrúar Sovétstjórnarinnar hafa í sumar gefið eftir í veigamiklum atriðum, sem áður stóðu í vegi samninga um takmörkun vígbúnaðar. Þeir hafa fallizt á nákvæmara eftirlit með efndum en þeir töldu sig áður geta.

Hið umdeilda eftirlit er margs konar. Í fyrsta lagi þarf eftirlit með hugsanlegu samkomulagi um takmörkun eða bann kjarnorkutilrauna. Í öðru lagi þarf eftirlit með hugsanlegu samkomulagi um fækkun langdrægra og meðaldrægra eldflauga og tilheyrandi kjarnaodda.

Fleira er hættulegt en kjarnorkan. Í þriðja lagi þarf eftirlit með hugsanlegu banni við framleiðslu og varðveizlu eiturefnavopna. Og í fjórða lagi þarf eftirlit með hefðbundnum herflutningum og heræfingum á landi, sjó og í lofti til að draga úr líkum á óvæntri árás.

Bandaríkjastjórn ætti í sumum tilvikum að geta fallizt á eftirlit úr fjarlægð, ef nútímatækni leyfir slíkt. Í öðrum tilvikum getur ekkert komið í stað eftirlits á vettvangi. Grundvallaratriði slökunar í heiminum er, að Sovétríkin leyfi þess konar gagnkvæmt eftirlit.

Hins vegar er marklaust að fá rithönd Gorbatsjovs undir loforð um frið og vináttu, kjarnorkuvopnalaus svæði og ýmsar viljayfirlýsingar, sem Sovétstjórnin hefur hingað til tekið fram yfir raunhæft eftirlit. Vesturveldin eru löngu orðin þreytt á lygum og svikum.

Á móti eftirgjöf í eftirliti á ýmsum sviðum má ætla, að Sovétstjórnin geri harða kröfu um algert bann við kjarnorkutilraunum. Eðlilegt er, að Bandaríkjastjórn fallist á þá kröfu, enda hefur hún í ár að nokkru bætt sér upp nokkurs konar fyrra misvægi á því sviði.

Mál þessi voru til umræðu í fyrri viku á fundi, sem hernaðarsérfræðingar beggja aðila sátu í Moskvu. Fleiri slíkir fundir verða vafalaust haldnir fram að mikilvægum áfanga, fundi utanríkisráðherranna Shevardnadze og Schulz í New York 19. og 20. september.

Utanríkisráðherrafundurinn hefur að meginverkefni að undirbúa svokallaðan toppfund þeirra Gorbatsjovs og Reagans í vetur. Þar má vonast til, að undirritaður verði eins konar rammasamningur um ofangreind mál, sem varða frið og öryggi mannkyns í nútíð og framtíð.

Ekki er við að búast, að formlegur samningur verði gerður um einstök atriði, þótt vel gangi. Leiðin til takmörkunar vígbúnaðar er flókin og torsótt og reynsla vesturvelda af fyrri samningum er bitur, því að Sovétstjórnin hefur reynzt afar undirförul og svikul.

Eftir langt tímabil myrkurs og vonleysis skiptir þó miklu máli, að ljós sést í fjarlægð og þar með vonarglæta um tryggari framtíð manna á viðkvæmri jörð.

Jónas Kristjánsson

DV