Fjárlögin eru lykillinn

Greinar

Vangaveltur um haustkosningar hafa lognazt út af. Ljóst er orðið, að ekki verður kosið fyrr en á næsta ári og líklega ekki fyrr en kjörtímabilið er nokkurn veginn eða alveg runnið út. Kröfur úr Sjálfstæðisflokknum um fyrirmálskosningar hafa ekki náð fram að ganga.

Þar með hyggst ríkisstjórnin mæta tveimur vandamálum, sem spáð hefur verið, að mundu reynast henni þung í skauti. Annað er fjárlagafrumvarpið, sem lagt verður fyrir Alþingi í október. Hitt eru kjarasamningar aðildarfélaga Alþýðusambandsins í upphafi næsta árs.

Þetta er í fyllsta máta eðlileg niðurstaða. Rökin fyrir haustkosningum voru ekki sannfærandi. Eðlilegra er, að ríkisstjórnin reyni að tryggja árangurinn, sem náðist í vetur sem leið í baráttunni gegn verðbólgu. Næstu fjárlög og kjarasamningar vega þar þungt.

Ekkert hefur enn komið fram, sem bendir til, að næst verði ekki hægt að ná heildarsamningum um laun á svipuðum nótum og gert var í upphafi þessa árs. Þvert á móti mun góð reynsla af hóflegum kjarasamningum hvetja til framhalds á hinni sömu braut.

Launafólki er vel ljóst, að óhófssamningar fyrri ára leiddu til kjararýrnunar og að hinir hóflegu samningar í ár voru hinir fyrstu í langan tíma, sem leiddu til kjarabóta. Árið 1986 er fyrsta kjarabótaárið um langt skeið. Það verður fólki í fersku minni eftir áramót.

Hugsanlegt er, að ýmsir forustumenn í aðildarfélögum Alþýðusambandsins telji mikilvægara að klekkja á ríkisstjórninni rétt fyrir kosningar heldur en að ná hóflegum kjarabótum fyrir sitt lið. En um leið getur verið áhættusamt að láta slík annarleg sjónarmið ráða.

Ekki dugar að þessu sinni að vísa til fyrri dæma um, að stjórnarflokkar hafi farið illa út úr kosningum, sem háðar hafa verið í kjölfar harðrar kjarabaráttu. Aðstæðurnar eru aðrar núna en þær voru á sínum tíma. Stöðvun verðbólgunnar er vinsæl og verður svo enn um sinn.

Meiri hætta er á ferðinni við smíði fjárlagafrumvarpsins. Lausafregnir af henni benda til, að ríkisstjórnin taki hana ekki nógu alvarlega. Verst er, að stefnt er að framhaldi hins gífurlega og skaðlega hallarekstrar, sem hefur einkennt þetta ár og síðasta ár.

Ekki er nógu gott að leggja á borð fyrir kjósendur óljósar hugmyndir um, að hallann megi afmá á nokkrum árum, til dæmis þremur. Ríkisstjórnin verður að vera búin að ná árangri, þegar kjörtímabilinu lýkur. Hún á ekki að spá árangri þeirrar stjórnar, sem við tekur.

Venjan er, að ríkisstjórnir miði loforð og efndir við kjörtímabil, enda er marklaust að lofa upp í ermi annarra ríkisstjórna, sem síðar koma. Ríkisstjórnin hefur komið ríkisfjármálunum í ömurlegan hnút og á sjálf að leysa hann, áður en hún gengur til kosninga.

Ríkisstjórnin fer illa út úr kosningunum, ef hún mætir kjósendum með þriðja árið í röð upp á tveggja milljarða halla, ­ skefjalausa samkeppni um lánsfé á innlendum markaði og tilheyrandi vaxtabólgu, ­ og svik við loforð um afnám tekjuskatts á venjulegum tekjum.

Þar sem ríkisstjórnin má ekki og vill ekki leysa vandann með skattahækkunum, verður hún að horfast í augu við, að tímabært er að skera niður við trog sumar af heilögu kúnum á ríkisjötunni. Til dæmis má skera tvo milljarða af hinum hefðbundna landbúnaði.

Ef ríkisstjórnin þyrði að koma slíku viti í fjárlagafrumvarpið, gæti hún óttalaus mætt kjarasamningum næsta vetrar og síðan kjósendum að vori.

Jónas Kristjánsson

DV