Fjármál og feimnismál

Greinar

Meðan utanríkisráðuneytið er að stuðla að ættfræðilegri skrásetningu 200 þúsund Vestur-Íslendinga er Tölvunefnd að leita leiða til að ritskoða hefðbundin ættartöl og stéttartöl og leyfa einstaklingum beinlínis að bannna, að nöfn þeirra séu birt í slíkum ritum.

Meðan forsætisráðuneytið leggur mikla vinnu við að fá samþykkt og að kynna almenningi ný upplýsingalög, sem gera ráð fyrir mun greiðari aðgangi að skjölum er fjármálaráðuneytið að leita nýrra leiða til að takmarka enn frekar en áður aðgang að álagningarskrám skatta.

Vinstri höndin í kerfinu veit ekki hvað hin hægri gerir. Annars vegar er verið að opna kerfið og auka útbreiðslu þekkingar. Hins vegar er verið að loka kerfinu og takmarka útbreiðslu þekkingar. Á síðara sviðinu starfa einkum Tölvunefnd og fjármálaráðuneytið.

Lokunarsinnar vilja túlka einkamál svo vítt, að það nái til feimnismála og fjármála, þar á meðal skatta, sem greiddir eru opinberum aðilum. Svo langt gengur þetta, að ætla mætti, að fyrirtæki séu sálir, sem hafi persónur og einkalíf, sem beri að vernda fyrir hnýsni að utan.

Fjármálaráðuneytið hefur gert nokkrar tilraunir til að loka álagningarskrám skatta. Það sættir sig ekki við landslög og gaf í fyrra út ólöglega reglugerð um lokun þessara skráa. Eftir gagnrýni Alþingis var reglugerðin dregin til baka. En ráðuneytið gafst samt ekki upp.

Það hefur skipað nefnd til að smíða nýjar reglur, sem fela í sér, að álagningarskrám verði lokað, en í staðinn opnaðar skattskrár, sem veita tveggja ára gamlar upplýsingar. Slíkar skrár eru þeim mun gagnminni sem þær eru eldri, enda er það markmið ráðuneytisins.

Enginn aðili í kerfinu fer þó meiri hamförum gegn opnun þess en Tölvunefnd, sem er að kanna möguleika til afskipta af ættfræði. Var þó Vilmundur Jónsson landlæknir í eitt skipti fyrir öll búinn að brjóta þá múra, þegar hann birti eyðurnar frægu í fyrsta Læknatali.

Nokkrir menn reyndu að koma í veg fyrir, að Vilmundur birti nöfn líffræðilegra foreldra kjörbarna. Hann leysti málið með því að taka nöfnin út, en skilja eftir nákvæmlega mældar eyður, þar sem þær æptu framan í lesendur og auglýstu það, sem ekki mátti sjá.

Þannig mun einnig fara fyrir tilraunum Tölvunefndar til afskipta af þjóðaríþrótt Íslendinga. Eyðurnar munu skera í augu og þögnin mun æpa. Enda er nefndin komin langt á villigötur í sjónarmiðum sínum á landamærum opinberra upplýsinga og einkamála.

Barneignir utan hjónabands eru ekki einkamál, ekki heldur lágar einkunnir embættismanna á háskólaprófum og enn síður fjármál fyrirtækja og skattgreiðslur manna til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins. Þetta geta verið feimnismál, en eru ekki einkamál.

Sem dæmi um þetta er tjónaskrá bíla. Tjón geta verið feimnismál, en eru ekki einkamál, þegar bíll er til sölu. Þá er tjónasagan mikilvægt gagn fyrir kaupandann, svo að viðskiptin séu heiðarleg. En Tölvunefnd hefur reynt að takmarka aðgang almennings að tjónaskránni.

Sjónarmið fjármálaráðuneytisins og Tölvunefndar stríða gegn anda hinna nýju upplýsingalaga og miða að því að gera þjóðfélagið ógegnsætt. Þau rugla fjármálum og feimnismálum saman við einkamál. Þau draga úr möguleikum borgaranna til að átta sig á þjóðfélaginu.

Mikilvægt er, að jafnan sé fylgzt vel með afturhaldsöflum kerfisins og tilraunum þeirra til að varpa leyndarhjúp einkamála yfir fjármál og feimnismál.

Jónas Kristjánsson

DV