Fjármál óskhyggjunnar.

Greinar

Gaman væri að vita, hvort mikið af starfshópum Hjörleifs Guttormssonar orkuráðherra verður enn á lífi á næsta ári á kostnað skattgreiðenda, úr því að talað er um, að sérstök áherzla hafi verið lögð á sparnað við gerð yfirvofandi fjárlagafrumvarpa.

Einu sinni inni, alltaf inni, er almenna reglan um útgjöld fjárlaga. Sparsamir fjármálaráðherrar geta með sæmilegum árangri þvælzt fyrir nýjum útgjaldaliðum. En þeim hefur reynzt nánast ógerlegt að losna við þætti, sem fyrir eru.

Munur aðhalds og eyðslu í rekstri ríkisins er einkum fólginn í, að á sparnaðartímum er nýjum útgjaldaliðum ekki bætt við, heldur er þeim frestað til sóunarskeiðanna. Sparnaðurinn felst nánast aldrei í niðurskurði umsvifa.

Ríkið hefur allt aðra aðstöðu en heimilin, sem verða að haga útgjöldum eftir tekjum. Heimili geta ekki ákveðið að auka tekjur sínar til að mæta útgjöldum. Það getur ríkið hins vegar með skattlagningu og gerir óspart.

Í flestum tilvikum telja fjölskyldur útgjaldaþörf sína mun meiri en tekjur þeirra eru. En óskhyggjan verður að bíða átekta, því að fjárhagsdæmið verður að ganga upp mánuð eftir mánuð. Sumir útgjaldadraumar ná aldrei fram að ganga.

Þegar kaupmáttur ráðstöfunartekna fjölskyldna dregst saman, svo sem gerist hér á næstu mánuðum, verða fjölskyldur landsins að draga saman seglin, fækka útgjaldaliðum, svo að áfram verði slétt útkoma í mánaðarlegu fjárhagsdæmi heimilisins.

Með skattheimtuvaldinu er ríkið eini aðili þjóðfélagsins, sem hefur aðstöðu til að falla í þá freistni að auka tekjur sínar upp í þau útgjöld, sem ráðamenn ímynda sér, að séu brýn. Og oftast verður freistingin ofan á.

Smám saman leiðir þetta til stækkunar ríkisgeirans á kostnað annarra geira, einkum á kostnað ráðstöfunartekna almennings. Þetta getur þolazt á uppgangstímum, en leiðir á samdráttartímum til óánægju og öngþveitis.

Smíði fjárlaga ætti að hefja með því að ákveða, hver skuli vera hlutur ríkissjóðs í þjóðarbúinu. Er spáð hefur verið í verðbólgustig næsta árs, mundu ráðamenn hafa fyrir sér niðurstöðutölur fjárlaga.

Með samningum ætti síðan að deila fénu niður á einstök ráðuneyti og síðan milli málaflokka og stofnana innan ráðuneyta. Þá loks standa menn andspænis þeim raunveruleika, að einhvern rekstur verði hreinlega að leggja niður.

Þetta er sama hugsun og gildir við meðferð fjármuna heimilanna í landinu. Þetta er heilbrigð fjármálastefna í samræmi við raunveruleika hvers tíma. Þar að auki hamlar hún gegn verðbólgu, með því að draga úr freistingum seðlaprentunar.

Í stað þessa sendir fjármálaráðuneytið öðrum ráðuneytum bréf með beiðni um óskalista. Ráðuneytin senda síðan stofnunum sínum hliðstæð bréf. Þegar allir óskalistarnir hafa safnazt saman, eru niðurstöðutölurnar auðvitað hrikalegar.

Í vandræðum sínum ákveður fjármálaráðuneytið að taka ekki mark á óskalistunum, heldur slengja áætlaðri verðbólguhækkun á alla liði ríkisrekstrarins, hversu misjafnlega þarfir sem þeir eru. Bastarðurinn er svo kallaður fjárlagafrumvarp.

Þau brýnu erindi, sem ekki rúmast í frumvarpinu, eru síðan sett í frumvarp til lánsfjárlaga, svo að óskhyggja ráðamanna megi fá skjóta útrás, þótt það verði á kostnað afkomenda okkar, sem verða að borga skuldasúpuna í útlöndum.

Jónas Kristjánsson

DV