Fjögur frumvörp Vilmundar.

Greinar

Eitt af fjórum athyglisverðum frumvörpum Vilmundar Gylfasonar alþingismanns fjallar um, að komið verði á frjálsum samningum um fiskverð í stað verðákvörðunar sendimanns ríkisstjórnarinnar, svonefnds oddamanns.

Vinnubrögð við ákvörðun fiskverðs eru nú þau, að oddamaðurinn býður fiskseljendum upp á bandalag um 20% hækkun, ella geri hann bandalag við kaupendur um 16% hækkun. Jafnframt býður hann kaupendum hliðstætt bandalag um 16% hækkun.

Báðir aðilar eru óánægðir. Fiskseljendur höfðu viljað 24% hækkun og fiskkaupendur 12%. Að lokum fellur annar aðilinn fyrir freistingu oddamanns til þess að hindra samkomulag hans við hinn samningsaðilann.

Niðurstaðan er ekki í neinu samhengi við efnahagslegar forsendur eins og þær mundu mælast á frjálsum markaði. Mikið og vaxandi ósamræmi er milli verðs á gæðaflokkum, fisktegundum og veiðiaðferðum.

Fiskverðið er í þess stað reist á byggðasjónarmiðum, hagsmunum þrýstihópa og öðrum annarlegum forsendum. Þetta er ein af mikilvægustu orsökum síaukinnar rýrnunar fiskgæða, sem mjög hefur verið í fréttum að undanförnu.

Þess vegna er nauðsynlegt að afnema sendimann ríkisstjórnarinnar og gera samningsaðila sjálfa ábyrga fyrir fiskverði. Oddamannskerfið þótti sniðugt á sínum tíma, en til lengdar hefur það leitt til ábyrgðarleysis.

Annað frumvarp Vilmundar fjallar ekki um afnám einnar lagagreinar, heldur heilla laga, númer 17 frá árinu 1936. Þau fjalla um, að sveitarstjórnum sé heimilt að setja reglur um opnunartíma verzlana.

Í reynd hafa sum sveitarfélög, þar á meðal Reykjavík, verið bandingjar þrýstihóps, myndaðs af hinum latari kaupmönnum og samtökum verzlunarmanna, á kostnað neytenda.

Afleiðingin er í Reykjavík sú, að verzlanir eru helzt ekki opnar nema yfir hádaginn, meðan neytendur eru í vinnu. Frumvarp Vilmundar stefnir að frelsi kaupmanna til að hafa opið, þegar þeim og neytendum sýnist.

Þriðja frumvarpið fjallar um, að launþegar á stærri en 25 manna vinnustöðum geti með tveimur þriðju hlutum atkvæða í skriflegri og leynilegri atkvæðagreiðslu ákveðið að taka kjarasamninga í eigin hendur.

Þetta er raunar rökrétt framhald stefnu Alþýðusambands Íslands frá árunum 1956 til 1962, er vinnustaðurinn átti að vera undirstaðan í uppbyggingu verkalýðssamtakanna. En lítið hefur orðið úr framkvæmdum.

Skref í þessa átt hafa verið stigin í kjarasamningum hjá stóriðjuverunum í Straumsvík og á Grundartanga. Þar hefur vinnustaðarreglan gefizt vel, leitt til vinnufriðar og kjarabóta umfram aðra vinnustaði.

Merkasta frumvarp Vilmundar fjallar loks um aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdavalds í líkingu við Frakkland og Bandaríkin. Forsætisráðherra verði þjóðkjörinn í tveimur umferðum á fjögurra ára fresti.

Forsætisráðherra skipi sjálfur ríkisstjórn og sé utanríkisráðherra staðgengill hans. Alþingi sjái um fjárveitingar, löggjöf og eftirlit. Ýmislegt fleira athyglisvert er í þessu frumvarpi frjóasta þingmannsins á alþingi.

Jónas Kristjánsson

DV