Fjölbreyttar forsendur

Greinar

Fólki er heimilt að hafa hliðaratriði ofarlega í huga, þegar það gengur til kosninga, eða að hafa ekki kannað mál ofan í kjölinn. Löng hefð er fyrir því í heiminum, að lýðræði standi ekki og falli með því, hvort kjósendur séu með allt á hreinu í staðreyndum og röksemdafærslu.

Gera má ráð fyrir, að margir mundu ekki búa sig undir þjóðaratkvæðagreiðslu með því að setjast á skólabekk í málefnum Evrópska efnahagssvæðisins og að margir mundu jafnvel nota tækifærið til að lýsa andúð sinni á einhverju öðru, til dæmis ríkisstjórninni.

Þetta getur ekki gilt sem röksemd gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópska efnahagssvæðið, nema þá um leið sé verið að rökstyðja andstöðu við atkvæðagreiðslur og kosningar yfirleitt. Í eðli lýðræðis liggur, að fólk velur sjálft forsendur atkvæðis síns.

Íslendingar eru ekki taldir vera hælismatur, þótt rökstyðja megi, að vanhugsun þeirra eða skjönhugsun valdi því, að á Alþingi sitja 63 menn, sem sumir hverjir eru ófærir um að sinna því starfi og sem flestir hafa lítið sem ekkert kynnt sér Evrópska efnahagssvæðið.

Vafasamt er að fullyrða, að alþingismenn séu betur búnir undir að ákveða aðild að svæðinu heldur en almenningur mundi verða, ef hann væri spurður álits í atkvæðagreiðslu. Danir eru upplýstari um slík mál en aðrar þjóðir, einmitt vegna þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekki má heldur gleyma, að þingmenn voru kosnir í síðustu alþingiskosningum með nokkuð öðrum formerkjum en nú gilda. Þá hömpuðu frambjóðendur Sjálfstæðisflokks hugmynd um tvíhliða viðskiptasamning við Evrópusamfélagið í stað aðildar að svæðinu.

Frambjóðendur Framsóknarflokks og Alþýðubandalags studdu hins vegar á þeim tíma þátttöku þáverandi ríkisstjórnar í fjölþjóðlegum viðræðum um Evrópska efnahagssvæðið. Þeir hafa snúizt gegn svæðinu á sama tíma og andstæðingarnir hafa snúizt til stuðnings.

Í kjölfar síðustu kosninga urðu ríkisstjórnarskipti, sem leiddu til valda fylgismenn viðskiptasamnings á kostnað fylgismanna aðildar. Það er lapþunn rökfræði, að þessir skoðanaskiptingar hafi nú umboð til að gerast aðili að svæðinu fyrir hönd íslenzkra kjósenda.

Ekki má heldur gleyma, að illa er staðið að málinu af hálfu stjórnvalda. Enn eru ókomin á borð þingmanna um 35 þingmál, sem eru hluti af aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, og á þó að afgreiða málið í heild fyrir jól. Margir eru réttilega ósáttir við þetta.

Ríkisstjórnin virðist ekki heldur ætla að eiga frumkvæði að ráðstöfunum, sem bent hefur verið á, að nauðsynlegar eða góðar séu til að hamla gegn áhrifum af beinum eða óbeinum kaupum útlendinga á landi, fiskiskipum og fiskvinnslu og atvinnuþátttöku útlendinga.

Eðlilegt er, að margt fólk sé hrætt við að þurfa að ganga á nærklæðunum til frelsisins í Evrópska efnhagssvæðinu, svo sem ríkisstjórnin ætlast til með lélegum undirbúningi sínum. Þetta eitt út af fyrir sig er nægileg forsenda fyrir kröfunni um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Skoðanakannanir hafa sýnt, að djúpstæður klofningur er á Íslandi um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Forustumenn sumra ríkja í Evrópu hafa talið slíkan klofning valda því, að efna þurfi til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál af þessu tagi, svo sem dæmin sanna.

Þjóðaratkvæðagreiðsla kemur í veg fyrir, að kjósendur telji pólitíska fursta og embættismandarína í fílabeinsturnum vera að draga sig inn í iðu óvissunnar.

Jónas Kristjánsson

DV