Fjöldamorð í Falluja

Greinar

Fjöldamorð Bandaríkjahers í Falluja eru hafin. Þar eru nú um 200.000 óbreyttir borgarar. Til þess að frelsa þá undan 1.500-2.000 skæruliðum, mun bandaríski herinn drepa um 20.000 óbreytta borgara til viðbótar þeim 100.000, sem hann hefur áður drepið í loftárásum og öðrum fjöldamorðum í Írak.

Ekkert af þessu fólki hefur gert Bandaríkjunum neitt til miska, ekki einu sinni stjórn Saddam Hussein. Bandaríski herinn er í krossferð gegn trúarbrögðum, sem eru bandarískum trúarofstækismönnum ekki að skapi. Þetta eru viðurstyggileg manndráp, sem ráðamenn Íslands styðja með ráðum og dáð.

Frá og með loftárássinni á Dresden fyrir sex áratugum við lok síðari heimsstyrjaldarinnar hafa breytzt hlutföll fallinna í styrjöldum. Í gamla daga voru óbreyttir borgarar helmingur fallinna. Síðan Bandaríkjamenn komust til áhrifa í heiminum hefur hlutfall óbreyttra borgara meðal fallinna farið upp í 90%. Svo var í Víetnam og svo er núna í Írak.

Bandaríkjamenn og raunar margir Íslendingar, sérstaklega fréttamenn, telja loftárásir á borgir og bæi, þar sem flugmenn sjá ekki fórnardýr sín, ekki vera stríðsglæpi. Bandaríkjamenn neita raunar að fallast á það sjónarmið, að nokkrar stríðsaðgerðir þeirra í geti verið stríðsglæpir.

Blaðamenn Vesturlanda hafa gersamlega brugðist skyldum sínum gagnvart blóðbaðinu í Írak. Þeir stóðu sig vel í Bosníu og Kosovo, en núna tala þeir bara og skrifa eins og ekki sé til neinn almenningur í Írak. Þeir skrifa alls ekki neitt um börnin, sem reyna að fela sig fyrir bandarískum sprengjum.

Íslenzkum fréttamönnum og blaðamönnum kemur greinilega ekkert við, hvernig daglegt líf gengur fyrir sig í Falluja. Þeir skrifa ekki um hetjudáðir manna, sem reyna að koma slösuðum börnum á spítala. Gegnum Reuter og Associated Press lepja þeir veruleikafirringuna upp úr stríðsglæpamönnum.

“We will win the hearts and minds of Falluja by ridding the city of isurgents. We’re doing that by patrolling the streets and killing the enemy.” Þessi ummæli hermanns segja allt sem segja þarf um firringuna, sem íslenzku starfsliði fjölmiðla hefur gersamlega mistekizt að koma á framfæri.

Eftir nokkra mánuði verður umfang fjöldamorðanna í Falluja orðið ljóst og þá verður líka ljóst, að þau leiða ekki til fækkunar andófsmanna í Írak. Smám saman er þjóðin að rísa upp gegn drápsglöðu hernámsliði og leppstjórn þess, sem lýtur forustu Íjad Allavi, gamals njósnara fyrir Bandaríkin.

Skelfilegt er, að fjöldamorðin í Írak skuli vera studd vilja forsætis- og utanríkisráðherra Íslands og með háværri þögn blaðamanna, sem heyra ekki óp barnanna í sprengjurústunum.

Jónas Kristjánsson

DV