Fjöllin hækka ört um allt

Greinar

Með hverju árinu kemur betur í ljós, að hagkvæmara er að vera kaupandi en seljandi á alþjóðlegum markaði landbúnaðarafurða. Offramleiðslan í heiminum fer vaxandi og verðlagið lækkandi. Þetta er ekki sveifla, heldur þróun, sem mun halda áfram um langa framtíð.

Lága verðið byggist á, að til eru lönd, sem hafa mjög ódýra framleiðslu, svo sem Bandaríkin, Ástralía, Nýja-Sjáland og Argentína. Þau framleiða ýmiss konar kjöt og kornvörur á mun lægra verði en önnur lönd og geta án uppbóta selt búvörur sínar til útlanda

Ofan á framboðið frá þessum tiltölulega auðugu löndum koma svo hin miklu umskipti, sem hafa orðið í löndum þriðja heimsins. Fátæku löndin, sem fyrir svo sem fimmtán árum urðu að flytja inn matvæli til að hindra árlega hungursneyð, eru nú aflögufær.

Frægasta dæmið um þetta er Indland. Enn meiri hefur breytingin þó orðið í Kína, þar sem framleiðslan matreiðsla hefur aukizt um 40%. Og gamalt hörmungabæli á borð við Bangladesh getur nú séð um sig sjálft.

Til eru undantekningar, svo sem Eþíópía, þar sem hungrið stafar sumpart af þurrkum og sumpart af stjórnarstefnunni. Samt er reiknað með, að miklar framfarir í landbúnaði muni skjótt gera nærri öllum þjóðum heims kleift að hafa nægan mat.

Af þessu leiðir, að framboð eykst á matvælum á alþjóðamarkaði og eftirspurn minnkar. Sérfræðingur bandaríska utanríkisráðuneytisins í landbúnaðarmálum, Dennis T. Avery, sagði nýlega, að vöxtur landbúnaðarframleiðslu væri rétt að byrja. “Við höfum enn ekki séð nema brot af því, sem kemur”, sagði hann.

Það litla, sem þegar er komið í ljós, hefur leitt til gífurlegs kostnaðar þeirra landa, sem offramleiða mun dýrari landbúnaðarvörur en Bandaríkin, Nýja-Sjáland, Ástralía og Argentína. Efnahagsbandalag Evrópu er frægasta og langsamlega dýrasta dæmið um ógöngurnar, er fylgja stefnu, sem er eins og hin íslenzka.

Styrkjastefna Efnahagsbandalagsins hefur hlaðið upp fjöllum, rúmri milljón tonna af smjöri, hálfri milljón tonna af mjólkurdufti, tæpri milljón tonna af kjöti og átján milljónum tonna af ýmsu korni. Bandalagið hefur neyðst til að taka á leigu kæligeymslur í útlöndum, svo sem í Sviss og Austurríki.

Sovétríkin hafa stundum losað bandalagið við smjörfjallið á afar lágu verði. Ef við keyptum smjör á sömu kjörum, annaðhvort frá bandalaginu eða einhverju landanna, sem hafa efni á að selja það svona ódýrt, yrði smjörverð hér einn tíundi af því, sem það er nú.

Sovétríkin eru orðin sjálfum sér nóg og fjöll Efnahags bandalagsins halda áfram að stækka. Okkar fjall stækkar líka. Í fyrra jókst mjólkurframleiðsla um 7%, þrátt fyrir minnkandi neyzlu okkar. Öll þessi aukning fór í vinnslu smjörs og osta til útflutnings á verði, sem nær ekki nema broti af kostnaði við framleiðsluna.

Smjörbirgðir Íslendinga hafa á einu ári aukizt úr 480 tonnum í 737 tonn. Ostbirgðirnar hafa aukizt úr 860 tonnum í 990 tonn. Hliðstætt ástand er í dilkakjötinu. Samt er ríkið nýbúið að borga mikið fyrir útflutning.

Við ættum markvisst að hraðminnka framleiðslu hefðbundinna og ofsadýrra landbúnaðarafurða og kaupa þær í staðinn á útsölu í útlöndum. Í staðinn ættum við að sinna betur arðbærum störfum. Engin aðgerð eflir betur fjárhag og lífskjör þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV