Fjölmenning er slagorð

Greinar

Dæmi nágrannaþjóða sýna, að hægara er sagt en gert að taka við nýbúum hér á landi. Góðan vilja þarf að tempra með raunsæi til að vel fari. Sérstaklega þarf að fara varlega við að nota góðviljuð og eldfim slagorð á borð við fjölmenningu, sem geta valdið bakslagi.

Annars vegar rísa ofbeldishneigðir skallabulluhópar fordóma gegn nýbúum og hins vegar þróast mafíuhópar nýbúa á skjön við siði og reglur nýja landsins. Við eigum að vita þetta allt af skelfilegum dæmum frá löndum á borð við Danmörku, Svíþjóð og Austurríki.

Mikilvægt er, að allir nýbúar í landinu hafi á hreinu, að lög og reglur nýja landsins gildi, en ekki landsins, sem flúið var. Þannig gengur ekki hér á landi að líta á kvenfólk sem hluta af dýraríkinu, þótt það sé gert í ýmsum illa stýrðum löndum, sem fæða af sér flest flóttafólkið.

Þetta þýðir, að konur í hópi nýbúa hafa sama frelsi og sömu skyldur og aðrar konur landsins. Ekki má láta þær giftast fyrr en aðrar konur og feður þeirra hafa engan refsingarétt yfir þeim. Hér eru glæpir og refsing ekki mál stórfjölskyldunnar, heldur sérstakra stofnana.

Þegar nýbúar vilja koma til landsins, er mikilvægt, að þeir séu sem allra fyrst og helzt fyrirfram fræddir um ýmsa viðkvæma þætti, sem eru öðru vísi hér á landi en í heimalandi þeirra. Þeir séu fyrirfram látnir vita, að illa fari, ef þeir vilja ekki þola lög og reglur nýja landsins.

Einnig er mikilvægt, að sem auðveldast og ódýrast sé gert fyrir þá að læra íslenzku, svo að þeir verði gjaldgengir á almennum og opnum vinnumarkaði. Ef nýbúar ganga atvinnulausir eða lokast inni á afmörkuðum atvinnusviðum lágstétta, er hætt við að illa fari til lengdar.

Mikilvægt er að gera greinarmun á tungumálarétti nýbúa og gamalgróinna minnihlutahópa. Kúrdar á Tyrklandi og Baskar á Spáni hafa aldagróinn rétt til að læra í opinberum skólum á sínu tungumáli, en nýbúar verða að gera svo vel að læra á tungu nýja landsins.

Þegar Íslendingar gerðust nýbúar í Kanada fyrir rúmri öld, tóku þeir því sem hverri annarri nauðsyn að læra ensku til að geta komizt áfram í nýja heiminum. Þeir létu sér ekki detta í hug, að ríkisvaldið mundi útvega þeim kennslu á íslenzku og töldu það enga skerðingu mannréttinda.

Hins vegar er mikilvægt, að ríkið greiði kostnað við varðveizlu tungumála nýbúa og stuðli á annan hátt að varðveizlu menningarsérkenna úr upprunalegum heimkynnum þeirra, svo sem trúarbrögðum, tónlist, klæðaburði og matreiðslu. Í því felst raunsæ fjölmenningarstefna.

Vafasamt er til dæmis að banna ákveðinn klæðaburð kvenna í skólum, ef þær telja hann vera hluta af trúarlífi sínu. Frakkar og Tyrkir hafa reynt að banna slæður kvenfólks, en ekki haft árangur sem erfiði. Við þurfum að læra af þessari reynslu eins og annarri slíkri.

Ef skynsamlega og raunsætt er staðið að þátttöku nýbúa í þjóðfélaginu eru um leið dregnar vígtennur úr lýðskrumurum á borð við þá, sem slegið hafa pólitískar keilur í Danmörku og Austurríki út á ótta heimafólks við framandi nýbúa og jafnvel komizt til pólitískra valda.

Nánast öllum ríkjum Evrópu hefur mistekizt meðferð mála nýbúa. Mikilvægt er, að við lærum af mistökum annarra og látum raunsæi ýta vel meintum slagorðum til hliðar.

Jónas Kristjánsson

FB