Orðin “tíkarsonur” og “rakinn skíthæll” eru utan orðaforða íslenzkrar fjölmiðlunar. Þetta eru almenn fúkyrði, sem vísa ekki til neins sérstaks og verða aldrei rökstudd af neinu viti. Þau segja ekkert annað en, að notandi fúkyrðanna sé á lágu siðferðisstigi.
Þetta á bæði við um notandann og fjölmiðilinn, sem hefur notandann að dálkahöfundi og lætur undir höfuð leggjast að ritskoða það, sem fellur utan rammans. Reiði notandinn og fjölmiðill hans eru jafnsekir, þótt auðveldara sé að skilja notandann en fjölmiðilinn.
Orðið “ritsóði” vísar hins vegar til ákveðinna atriða og getur verið innan orðaforðans, sem nothæfur er í fjölmiðlum, ef orðið er rökstutt. Ekki er nauðsynlegt, að margir eða allir séu sammála rökstuðningnum. Það er nóg, að eitthvert innra samhengi sé í honum.
Í grein Sverris Hermannssonar í Morgunblaðinu var orðið “ritsóði” hins vegar ekki stutt rökum eða dæmum. Ekkert samhengi var sýnilegt milli þess, sem höfundurinn sagði tvo blaðamenn hafa skrifað, og þeirrar upphrópunar hans, að þeir væru ritsóðar.
Samhengið er mikilvægt. Þannig hefur reynzt leyfilegt að kalla embættismann “glæpamannaframleiðanda ríkisins”, ef hann stýrir betrunarhúsum, sem rökstutt er, að geri menn frekar að harðsvíraðri glæpamönnum en að þau leiði þá frá villu síns vegar.
Einnig má kalla mann “róna”, ef jafnframt er lýst atferli hans, sem rökstyðja má, að flokkist sem atferli slíkra og skaðar þar á ofan umbjóðendur mannsins. Þótt fast sé að orði kveðið, getur það verið í fullu samhengi við rökstuðninginn, sem fylgir fullyrðingunni.
Gera verður og gerður er greinarmunur á rökstuddum fullyrðingum og órökstuddum. Íslenzkir dómstólar gerðu slíkan greinarmun í gamla daga og gera aftur nú, þótt þeir hafi um tíma villzt af sporinu. Málfrelsi er þannig ekki skert, ef stóryrðin eru afleiðing röksemda.
Greinar Sverris Hermannssonar í Morgunblaðinu eru sérkennileg blanda uppljóstrana og dylgja, rökstuddra og órökstuddra fúkyrða. Í nokkrum tilvikum hefur hann farið svo skýrt yfir mörkin, að augljóslega þurfti að laga ummælin að siðaðra manna og fjölmiðla háttum.
Eitt hversdagslegra hlutverka fjölmiðla er að ritstýra aðsendum greinum. Ýmist má benda höfundum þeirra á að færa betri rök fyrir stóryrðum sínum eða fella stóryrðin niður að öðrum kosti. Þetta er sjálfsögð og hversdagsleg ritstjórn, sem heftir ekki málfrelsið.
Morgunblaðið hefur hins vegar flutt þá tæknilegu vörn í málinu, að órökstudd fúkyrði Sverris feli ekki í sér ærumeiðandi ummæli um nafngreinda einstaklinga. Þetta er langsótt vörn, enda var augljóst, við hverja var átt, þótt þeir væru ekki beinlínis nafngreindir.
Segja má, að hamslaus fúkyrði meiði ekki æru annars en þess, sem þau notar. Þess vegna þurfa þeir, sem kallaðir voru “tíkarsynir” eða “skíthælar” ekki að hreinsa æru sína með meiðyrðamáli. Þeir standa jafnréttir sem áður. En það gerir Morgunblaðið hins vegar ekki.
Morgunblaðið hefði betur valið þann kost að segja uppákomuna vera slys og biðjast afsökunar á henni. Við vitum, að slys getur alltaf borið að garði. Með því að verja birtingu sína á órökstuddum fúkyrðum er blaðið hins vegar að velja sér óþarflega lágt tilvistarstig.
Afstaða Morgunblaðsins er sorgleg. Hún skaðar virðingu þjóðfélagsrýninnar og spillir möguleikum rýnenda á að kveða fast að orði, þegar það á við.
Jónas Kristjánsson
DV