Á MIÐÖLDUM URÐU MUNKAR stundum svo æstir, að þeir nauðguðu konum og sökuðu þær síðan um að vera senditíkur andskotans, sendar til að forfæra hersveitir guðs. Þær voru síðan teknar af lífi, meira að segja nokkrar í tiltölulega guðlausri lútersku á Íslandi. Í sagnfræðinni eru þetta kallaðar miðaldir.
HÚN REITTI HANN TIL REIÐI var röksemd héraðsdómara fyrir mildum dómi yfir ofbeldismanni, sem hafði lamið eiginkonu sína heima hjá sér. Þessa tilvísun til hugsunarháttar miðalda hefur Hæstiréttur staðfest með því að staðfesta dóminn. Niðurstaðan er sú, að kerlingar geti sjálfum sér um kennt, ef karlarnir gruna þær um hliðarspor.
JÓN STEINAR GUNNLAUGSSON lagði fram skemmtilegt sérálit í Hæstarétti. Hann leit svo á, að ofbeldiskarlinn hefði fengið svo neikvæða umsögn í fjölmiðlum, að rétt væri að draga hana frá dómsniðurstöðu og milda dóminn. Þessi skoðun um aðild fjölmiðla að dómskerfinu gefur ýmsa skemmtilega möguleika í framtíðinni.
HVERT ER VÆGI NAFNS OG MYNDAR í frétt? Er hægt að skrásetja, hvernig fjölmiðlar séu aðilar að dómsvaldinu? Geta fleiri aðilar úti í bæ orðið aðilar að þessu kerfi. Ef ofbeldismaður fengi stóran vinning í happdrættinu, væri þá ástæða til að þyngja dóminn, af því að hann hefði fjárhagslegar forsendur til að milda afleiðingar hans?
SKIPULAGNING FJÖLMIÐLA er þrálát nauðungarhugsun margra kerfiskarla. Þeim finnst erfitt að hugsa sér, að fjölmiðlar gangi lausir í þjóðfélaginu. Þeir vilja gera fjölmiðla að hluta kerfisins, til dæmis hluta dómstólanna. Þeir vilja stjórna fjölmiðlunum. Í blaði laganema, Orator, er grein, þar sem lagt er til, að verklagsreglur Morgunblaðsins verði gerðar að lögum um verklagsreglur annarra fjölmiðla.
BLAÐAMENN SJÁ EKKI FYRIR SÉR, að þeir séu eins konar ígildi dómara, eins konar millidómstóll, sem Hæstiréttur þurfi að taka tillit til, þegar hann fellir dóma. Blaðamenn telja, að þeir séu bara að segja hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo. Þeir séu alls ekki að fara með dómsvald, þegar þeir segja fréttir.
TILLAGAN Í ORATOR er einstæð í vestrænu samfélagi, en sérálit Jóns Steinars sýnir, að hugarfarið er ekki einstætt á Íslandi.
DV