Fjölmiðlar blekkja

Greinar

Þegar glæpamenn sjá ekki þá, sem þeir drepa, virðast flestir telja það ekki vera hryðjuverk. Þetta gildir eins um þá, sem segja eða skrifa okkur erlendar fréttir. Einkum telja þeir þá, sem skipuleggja loftárásir eða framkvæma þær, ekki vera hryðjuverkamenn. Þetta sjónarmið er brezkt og bandarískt.

Adolf Eichmann var dæmdur fyrir fjöldamorð gegn gyðingum, þótt hann sæti allan tímann við skrifborðið og sæi aldrei fórnardýrin. Hið sama á auðvitað að gilda um þá, sem láta drepa eða drepa óbreytta borgara í loftárásum. Þar á meðal brezk og bandarísk yfirvöld hermála og stjórnmála almennt.

Þegar loftárásum er beint að byggðu bóli, borg eða þorpi, er ljóst, að óbreyttir borgarar verða fyrir hnjaski. Frá þessu er ekki eða mjög lítið sagt í fjölmiðlum. Það kom okkur því á óvart, að brezka læknatímaritið Lancet skuli segja okkur, að 100.000 manns hafi fallið í innrás og hernámi Íraks.

Rannsóknin, sem þessi tala byggist á, var framkvæmd á vegum Johns Hopkins Bloomberg læknaskólans í Baltimore. Írak var skipt í svæði og kannað á þúsund heimilum, hvert mannfall og fæðingar hefðu verið í fjölskyldunni. Með hefðbundnum líkindareikningi vísindarannsókna kom í ljós talan 100.000.

Einnig kom í ljós, að meirihluta hinna föllnu voru konur og börn, að loftárás var dánarorsök í öllum þorra tilvika og að manndrápslíkur höfðu margfaldazt 58 sinnum frá því á valdatíma Saddam Hussein. Bandaríkjamenn eru, eins og í Víetnam, að frelsa Íraka með því að drepa þá holt og bolt.

Lancet hefur farið hefðbundnar leiðir við birtingu Johns Hopkins skýrslunnar, sent hana öðrum fræðimönnum til að fá athugasemdir um vinnubrögð. Ekkert kom í fram, sem breytir tölunum, er hér hefur verið lýst. Því má vera ljóst, að grimmdarverk Bandaríkjamanna og Breta í Írak eru gífurleg.

Associated Press er bandarísk fréttastofa og Reuter er brezk fréttastofa. Þær eru báðar hallar undir það sjónarmið, að manndráp úr lofti séu “collateral damage”, en ekki glæpur gegn mannkyni. Það stafar auðvitað af, að þetta eru þeir glæpir, sem einkum þessi tvö ríki hafa stundað um áratugi.

Íslenzkir blaðamenn í erlendum fréttum fá fréttir sínar frá AP og Reuter og hafa ætíð verið hallir undir bandarísk og brezk sjónarmið. Það er hins vegar ekkert í alþjóðlegum samningum eða almennu siðferði, sem undanskilur loftárásir frá öðrum aðferðum við að murka lífið úr saklausu fólki.

Íslenzkir fjölmiðar bregðast okkur, þegar þeir fjölyrða um hryðjuverk á vegum lítilmagnans, en leyna fyrir okkur, að nú eru Bandaríkin margfaldur heimsmeistari í hryðjuverkum.

Jónas Kristjánsson

DV