Fjölskyldumál á torgum

Greinar

Að venju eru Íslendingar sammála um, að minnstu máli skipti, hvað hagfræðingurinn sagði í Seðlabankanum, heldur hver sagði það og hvernig það var sagt. Einkum þykir hneykslanlegt, að hann skuli hafa kallað loft fimleika Þjóðhagsstofnunar sínu rétta nafni.

Málinu hefur verið ýtt út af borðinu, af því að upplýst er, að það var bara hagfræðingur, en ekki Seðlabankastjóri, sem sagði, að keisarinn væri ekki í neinum fötum. Enda er notalegt að vita, að Seðlabankastjóri muni aldrei segja, að neinn sé ekki í neinum fötum.

Að einu leyti víkur afgreiðsla málsins frá hefðbundinni íslenzku. Venjulega hafa menn ekki bara áhuga á, hver sagði hlutinn og hvernig, heldur líka hvers vegna. Ekki var sett fram samsæriskenning um, að álitinu úr Seðlabanka sé ætlað að koma höggi á ríkisstjórnina.

Upphaflega var umræðuefnið, hvort allt færi til fjandans í þessu landi, ef ekki næðu fram að ganga bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar gegn kjarasamningum, sem hún hafði nýlega undirritað. Þjóðhagsstofnun hafði gefið út reikniæfingu, sem benti til harmleiks.

Loftfimleikar Þjóðhagsstofnunar eru gamalkunn fölsun, sem felst í uppreikningi á einstökum atburði á þann hátt, að gert er ráð fyrir, að ekkert gerist annað í Íslands sögunni og veraldarsögunni en þessi eini atburður. Þannig reiknaði stofnunin út 40% verðbólgu á næsta ári.

Sanngjarnt var að kalla þetta loftfimleika, enda eru svona útreikningar ekki gerðir af neinum hagfræðingi, sem er annt um virðingu sína. Þetta var líka ekkert annað en hefðbundin þjónusta Þjóðhagsstofnunar við kerfið, ­ sjónarspil svokallaðrar þjóðarsáttar.

Gaman var að sjá fóstbræðurna úr Alþýðusambandinu og Vinnuveitendasambandinu stika inn í kastala Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar til að mótmæla efnislegri umfjöllum um þjóðarsátt þeirra. Í þetta sinn fékk verkalýðsrekandi ríkisstarfsmanna ekki að fara með.

Í þjóðarsáttinni hefur myndazt ákveðin goggunarröð, svo sem venjulega gerist í stórfjölskyldum. Forsætis- og fjármálaráðherra mega gogga fóstbræðurna tvo og minni háttar ráðherra. Fóstbræðurnir mega svo gogga minni háttar verkalýðsrekendur og hagfræðinga.

Í goggunarröð þjóðarsáttar eru fóstbræðurnir á sama þrepi og minni háttar ráðherrar sjávarútvegs og landbúnaðar, sem mega gogga forstjóra ýmissa stofnana kerfisins, svo sem einokunarstofnana útflutnings og heildarsamtaka útgerðar, fiskvinnslu og landbúnaðar.

Ef minni háttar forstjóra í þessu sáttarkerfi stórfjölskyldunnar dettur í hug að kæra meðferð mála hér á landi til fjölþjóðlegra dómstóla, er það tekið óstinnt upp í fjölskyldunni, svo sem kom vel fram í leiðara Tímans á föstudaginn var. Þar var Palli kommi tekinn í gegn.

Á nútímamáli Tímans heitir þetta svo, að stórfjölskyldan “frábiður sér” utanstefnur af slíku tagi, sem þýðir, að menn vilji engar slíkar hafa. Við eigum að hafa að engu erkibiskups boðskap, svo að ekki fari fyrir okkur eins og forfeðrum okkar í lok þjóðveldisaldar.

Engu máli skiptir stórfjölskylduna, þótt íslenzk stjórnvöld hafi undirritað fjölþjóðlegt samkomulag af ýmsu tagi, meðal annars um, að skjóta megi til erkibiskups margvíslegri valdníðslu íslenzkra stjórnvalda, svo sem þeirri að setja bráðabirgðalög á eigin undirskrift.

Í stórfjölskyldu íslenzka fasismans er ekki til siðs að bera vandamál fjölskyldunnar á torg, heldur eru þau afgreidd með þögulli þjóðarsátt eða þjóðarsefjun.

Jónas Kristjánsson

DV