Fjör að færast í leikinn

Greinar

Það gneistaði af frummælendum á fjölmennum kosningafundi DV í Háskólabíó í gærkvöldi. Þar mættu til leiks helztu oddvitar og mælskufólk framboðslistanna og létu gamminn geisa, auk þess sem þeir svöruðu yfir sextíu spurningum áheyrenda utan úr sal.

Hinn eini, sem lét sig vanta, var Davíð Oddsson borgarstjóri. Reyndist hann þar smærri í sniðum en starfsbróðir hans á Seltjarnarnesi, sem daginn áður lét sig hafa það að taka þátt í borgarafundi, þótt sérhver hinna flokkanna fengi sama ræðutíma og hans flokkur.

Athyglisvert var, að fjórir af fimm ræðumönnum voru konur. Er það vafalaust tímanna tákn, að stjórnmálaflokkarnir tefla ekki aðeins fram konum í efstu sæti listanna, heldur létu þær einnig standa í eldlínunni á eina borgarafundinum, sem Reykvíkingum stóð til boða.

Fram að fundinum var almennt talið, að áhugi borgarbúa á kosningunum væri daufari en verið hefði við slíkar aðstæður í manna minnum. Hið sama hafa skoðanakannanir sýnt, þar sem ótrúlega og óeðlilega mikill hluti hinna spurðu hefur ekki gert upp hug sinn.

Þetta áhugaleysi sást ekki á kosningafundinum í gærkvöldi. Rúmlega 150 fyrirspurnir bárust fundarstjóra. Fjölluðu þær um flest þau mál, sem hafa verið til umræðu í kosningabaráttunni. Sátu áheyrendur sem fastast, þótt fundurinn færi langt fram úr áætlun.

Frummælendur gerðu sitt bezta til að sýna fram á, að munur væri á listum þeim, sem nú er teflt gegn meirihlutanum í borgarstjórn, auk þess sem þeir gerðu harða hríð að borgarstjóra og hans mönnum. Fátt var um svör, ­ af ástæðum, sem öllum eru orðnar kunnar.

Ljóst var af máli forustumanna lista stjórnarandstöðunnar, að þeir gera sér engar vonir um að fella traustan meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Sömu sögu segja raunar allar skoðanakannanir, sem birzt hafa í fjölmiðlum á undanförnum dögum, þar á meðal hér.

Í könnun DV, sem birtist í gær, var fylgi Sjálfstæðisflokksins komið niður í 58%. Kunnugir menn telja, að það muni reynast minna, þegar til kastanna kemur og hinir óákveðnu draga sig í dilka. Fáum dettur þó í hug, að það fari niður fyrir helming greiddra atkvæða.

Líta má svo á, að Sjálfstæðisflokkurinn sé öruggur með átta menn, Alþýðubandalagið með þrjá og Alþýðuflokkurinn og Kvennalistinn með einn hvor. Samtals gerir það þrettán fulltrúa, svo að eftir eru tveir, sem skoðanakönnunin gefur Sjálfstæðisflokknum.

Níundi og tíundi maður lista Sjálfstæðisflokks eru þá í baráttu við fjórða mann Alþýðubandalags, annan mann Alþýðuflokks, annan mann Kvennalista og fyrsta mann Framsóknarflokks. Búast má við tvísýnum úrslitum í þessi sæti, þótt meirihlutinn verði óbreyttur.

Auðvitað getur margt óvænt gerzt, þegar svo margir kjósendur eru enn óráðnir í síðustu viku fyrir kosningar. Ef til vill ráðast úrslitin í sjónvarpinu á föstudaginn, þegar oddamenn listanna leiða saman hesta sína. Þar verða líka síðustu forvöð kjósenda ­ fram að kjörklefa.

Hinn fjörugi fundur í gærkvöldi bar þess ánægjuleg merki, að óræði kjósenda stafar ekki eingöngu af áhugaleysi. Undir niðri vilja borgarbúar taka þátt í kosningum laugardagsins. Þeir eru bara enn opnir fyrir mismunandi sjónarmiðum, svo sem vera ber í lýðræði.

Fundurinn í gærkvöldi markaði þau tímamót, að framvegis munu Reykvíkingar ekki sætta sig við að fara á mis við almenna borgarafundi fyrir kosningar.

Jónas Kristjánsson

DV