Fjórar tímasprengjur.

Greinar

Nokkrar tímasprengjur hljóta að verða til umfjöllunar á væntanlegum fundum stjórnarflokkanna tveggja um næstu skref í stjórnarsamstarfinu. Það eru vandamál, sem ríkisstjórnin hefur látið hjá líða að fást við á fyrsta starfsárinu og hlaða nú upp á sig með vaxandi þunga.

Ein tímasprengjan er í sjávarútvegi. Þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar er haldið í sífellt harðari bóndabeygju, annars vegar með útsöluverði á erlendum gjaldeyri og hins vegar með útgerð of mikils skipaflota. Á hvorugum þessum vanda hefur verið snert.

Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að létta af hömlum á verzlun með veiðikvóta. Virðist það þó vera einfaldasta leiðin til að fækka skipum í útgerð og auka afla þeirra skipa, sem áfram er haldið úti. Tímabært er orðið, að stjórnvöld stuðli að kvótaviðskiptum.

Formenn stjórnarflokkanna segjast halda fast við hið stöðuga gengi, sem ríkt hefur um margra mánaða skeið. Víst er slík festa gagnleg í baráttunni gegn verðbólgu. En það hefnir sín um síðir að senda sjávarútveginum reikning fyrir herkostnaðinum og setja hann á höfuðið.

Önnur tímasprengjan er í síversnandi lífskjörum nokkurs hluta þjóðarinnar, sem hefur ekki notið neins af launaskriði undanfarinna mánaða. Þessi kjararýrnun stingur mjög í stúf við lífsstíl launaskriðsmanna, sem halda uppi óhagstæðum viðskiptajöfnuði gagnvert útlöndum.

Fyrstu sporin að kjarasamningum haustsins benda ekki til, að hagsmuna undirstéttarinnar í landinu verði gætt í niðurstöðunni. Miklu líklegra er, að öflugir sérhagsmunahópar muni nota tækifærið til að ota sínum tota umfram aðra og að lífskjaramunurinn aukist.

Þriðja tímasprengjan felst í hinni gífurlegu gjá, er hefur myndazt milli tveggja kynslóða, þeirrar sem byggði sér íbúð fyrir neikvæða vexti verðbólguáranna og hinnar, sem nú getur ekki eignazt þak yfir höfuðið, af því að húsnæðislánakerfið hefur ekki verið lagað að nýjum aðstæðum.

Ríkisstjórnin hefur lofað að hafa frumkvæði að endurreisn húsnæðislánakerfisins úr núverandi rjúkandi rústum þess. En ekki hefur bólað á neinum efndum. Á meðan fjölgar sífellt árgöngunum, sem geta ekki byggt. Um síðir eru þeir vísir til að hefna sín á ríkisstjórninni, sem sveik.

Ráðamenn þjóðarinnar hafa sér það til afsökunar, bæði í láglaunahneykslinu og húsnæðishneykslinu, að minnkandi þjóðartekjur þrengi svigrúm til gagnaðgerða. Þjóðfélagið hafi hreinlega ekki fjárhagslegan mátt til að gera allt hið góða, sem menn séu sammála um, að gera þurfi.

Fjórða tímasprengjan felst í, að ríkisstjórnin virðist alls ekki fáanleg til að létta af þjóðinni hinu hrikalega kostnaðarsama böli, sem felst í að tíundu hverri krónu ríkisins er varið til að halda uppi óþarfri og rándýrri framleiðslu hinna hefðbundnu landbúnaðarafurða.

Enginn vafi er á, að brennsla verðmæta í hinum hefðbundna landbúnaði, er nemur meira en einni Kröfluvirkjun á hverju einasta ári, takmarkar mjög möguleika stjórnvalda til að aftengja allar hinar tímasprengjurnar, sem lýst hefur verið í þessum leiðara.

Því miður benda fyrstu yfirlýsingar formanna stjórnarflokkanna og annarra framámanna þeirra ekki til, að ríkisstjórnin treysti sér til að reyna að aftengja tímasprengjurnar á næstunni. Þar með mun hún safna glóðum elds að höfði sér, hægt en örugglega.

Jónas Kristjánsson.

DV