Fjórðungssandur

Frá Bjarnalækjarbotnum um Fjórðungssand að Setri.

Að Bjarnalækjarbotnum liggur slóð úr byggð um Hólaskóg og Gljúfurleit. Það er hluti hinnar fornu Sprengisandsleiðar.

Hér er jeppafær eyðimerkurleið um melöldur og tjarnir og síðast um hraun milli Kisu og Hnífár, kölluð Fjórðungssandur. Hann er gróðurlaus að mestu nema í Eyvafeni og Hnífárveri. Sandurinn dregur nafn sitt af fornum ferðum um Arnarfell á Sprengisandsleið. Þá þurfti að ríða yfir sandinn og tók það að jafnaði þrjá tíma. Víðáttumikið útsýni er af hæðum á sandinum með Hofsjökul og Kerlingarfjöll í bakgrunni. Frá Setri liggja slóðir til ýmissa átta, austur í Arnarfell, vestur í Kerlingarfjöll og suður í Klakk eða Leppistungur.

Förum frá Bjarnalækjarbotnum í 580 metra hæð eftir jeppaslóð til austurs og norðausturs um botnana, yfir Miklalæk og Kisu og áfram norðaustur hjá Kjálkaveri að vegamótum til Tjarnarvers. Þar yfirgefum við hina fornu Sprengisandsleið og förum slóðina til norðurs og norðvesturs á Fjórðungssand og fylgjum þeirri leið í 600 metra hæð til vegamóta, þar sem ein slóð liggur til norðausturs að Nautöldu og tvær slóðir til norðurs og norðvesturs að Setrinu undir Hofsjökli. Förum norðvestur leiðina í átt að Setrinu og fylgjum syðstu slóðinni, þótt nyrðri hliðarslóðir leiði til sama áfangastaðar. Stefnum á norðurbrún Innri-Setu, þar sem við erum komin í 700 metra hæð. Förum norður fyrir fellið og þaðan beint í norður um Setuhraun í átt að skálanum í Setri, sem er í 700 metra hæð.

33,3 km
Árnessýsla

Skálar:
Bjarnalækjarbotnar: N64 24.833 W19 09.826
Setrið: N64 36.903 W19 01.165.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Kóngsás, Illahraun.
Nálægar leiðir: Rjúpnafell, Tjarnarver, Klakkur, Arnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson