Fjórðungsverð á varma.

Greinar

Við höfum náð meiri árangri í virkjun jarðvarma en vatnsafls, enda þótt við höfum á því sviði síður notið reynslu annarra þjóða. Meira að segja er búizt við, að orkuverið við Kröflu fari að borga sig um síðir.

Nú þegar framleiðir Kröfluverið 15 megawött og gæti farið upp í 30, ef markaður væri fyrir rafmagn. Samt hefur bezta holan ekki enn verið tengd. Þarna má hæglega ná upphaflega ætluðum afköstum, 60 megawöttum.

Krafla er dýrasta dæmið um afar mikilvæga reynslu, sem við höfum aflað okkur við beizlun jarðhita. Enn farsælla dæmi er orkuverið í Svartsengi, þar sem varlegar og fyrst og fremst hægar var farið í sakirnar.

Aftur á móti hafa vatnsorkuver síðustu áratugi valdið nokkrum vonbrigðum. Virkjun Þjórsársvæðisins hefur reynzt erfiðari en við var búizt. Hinn gífurlegi leki úr Sigöldulóni er skýrasta dæmið um slík vandamál.

Við horfumst í augu við, að samkeppnisaðstaða Íslands í rafmagnsverði frá vatnsorkuverum verður í bráð ekki eins góð og áður var vonað, enda þótt verð á olíu hafi margfaldazt. En þetta ætti þó að fara að lagast.

Hins vegar erum við komin svo langt í jarðvarmanum, að kostnaður við hitun húsa er víða kominn niður í 20-25% af olíukostnaði. Hitaveita Reykjavíkur selur sínum viðskiptamönnum varmann á 21% af verði olíukyndingar.

Verð Hitaveitunnar er of lágt. Hún hefur ekki haft bolmagn til að endurnýja gamla hluta kerfisins, sem eru að gefa sig. Og hún hefur í rúm tíu ár ekki haft efni á að bora í tilraunaskyni við Nesjavelli í Grafningi.

Í haust er ráðgert að hefja þar boranir. Reisa þarf 400 megawatta orkuver á næstu tíu árum til að mæta varmaþörfinni, sem verður að þeim tíma liðnum. Um þessar mundir eykst þörfin um 20 megawött á hverju ári.

Samt er gert ráð fyrir að stækka verði olíukyndistöð Hitaveitunnar til að hindra orkuskort á Reykjavíkursvæðinu. Þetta er hláleg afleiðing þess, að stefna vísitölufölsunar hefur lengi haldið niðri verði á heitu vatni.

Eðlilegt væri að hækka útsöluverð Hitaveitunnar upp í 25% af kostnaði við olíukyndingu til að gera henni kleift að sækja fram á við með eðlilegum hraða. Og í raun og veru eru 25% sérdeilis ánægjulega lág tala.

Tafla um hitunarkostnað, sem birtist nýlega hér í blaðinu, sýndi, að margar hitaveitur í landinu selja orkuna á 20-25% af olíukostnaði. Aðrar, sem yngri eru og fjármagnsfrekari, selja orkuna á 45-55% af olíukostnaði.

Þegar kúfur afborgana og vaxta er að baki, ættu nýlegu hitaveiturnar einnig að geta látið viðskiptavini sína njóta fjórðungsverðs eins og grónu hitaveiturnar gera nú þegar. Þá mun þorri þjóðarinnar njóta auðlindarinnar til fulls.

Þessi árangur minnir á, að þjóðhagslega er hagkvæmt, að Íslendingar búi sem flestir í eða við þéttbýli, sem hagnýtir sér eða getur hagnýtt sér ódýra hitaveitu frá orkuverum jarðvarmans. Það sparar stórfé.

Hann minnir líka á, að við þurfum að sinna betur möguleikum okkar í ylrækt, fiskirækt og margvíslegum iðnaði, sem öðlast hagkvæmni af ódýrum varma. Þar eigum við að hafa forskot, sem gerir íslenzka framleiðslu samkeppnishæfa.

Jónas Kristjánsson.

DV