Fjöreggið hjá róturum

Greinar

Rótarinn í spilverki sjóðanna mun hafa hinn nýja félagsmálasjóð gæludýranna í Reykjavík, þar sem fyrir eru sjóðir hinnar svokölluðu byggðastefnu. Þannig munu gerðir ríkisstjórnarinnar efla vöxt Reykjavíkur sem skömmtunarstaðarins, er strjálbýlið mænir á.

Kópaskersmenn munu segja Stefáni Valgeirssyni, að þeir geti fremur sótt skömmtunina til Reykjavíkur en til Akureyrar. Það er reynsla byggðastefnumanna, að þægilegast er að geta á einum stað skriðið milli allra þeirra stofnana og sjóða, sem skammta gæludýrum fé.

Gott dæmi um mikilvægi einnar skömmtunarmiðju í landinu er eitt helzta ágreiningsefnið í Fjórðungssambandi Norðlendinga. Það er óánægja jaðarbúa svæðisins, vestan og austan Eyjafjarðar, með að þurfa að sækja þjónustu hins ágæta sambands til Akureyrar.

Hin hefðbundna byggðastefna, sem einnig mætti kalla byggðastefnu óskhyggjunnar, byggist einmitt á auknum aðgerðum stjórnvalda til að afla fjár og skammta það til þeirra verka, sem mikilvægust eru að mati rótarans í spilverki sjóðanna og að annarra beztu manna yfirsýn.

Þessi stefna er hornsteinn hinnar miklu og vaxandi miðstýringar í þjóðfélaginu, þeirrar stefnu, sem oft er kennd við Framsóknarflokkinn, en er raunar rekin af öllum stjórnmálaflokkunum. Miðstýringin hefur eðli málsins samkvæmt aðeins eina þungamiðju, Reykjavík.

Hin gagnstæða stefna, sem einnig mætti kalla byggðastefnu raunveruleikans, vill flytja ákvarðanir og ábyrgð frá einni valdamiðju yfir til einstaklinganna og mikils fjölda samtaka þeirra í fjölskyldum, fyrirtækjum, félögum og sveitarfélögum, hvar sem er í landinu.

Byggðastefna raunveruleikans biður ekki um enn einn skömmtunarsjóðinn í Reykjavík ofan á alla hina. Hún sendir ekki fulltrúa sína til að skríða á hnjánum milli kontóra í Reykjavík til að þiggja ruður af nægtaborði hinna afar góðgjörnu stjórnmálamanna landsins.

Raunhæf byggðastefna hafnar slíkum ræfildómi, sem drepur byggðir landsins í dróma. Um leið og hún hafnar miðstýringu vill hún einnig leggja niður miðstýrða skráningu á gengi krónunnar og miðstýrða skömmtun kvóta til að veiða fisk og selja hann fyrir gjaldeyri.

Ef fiskveiðileyfi væru boðin út og væru í frjálsri sölu og ef gengi krónunnar væri ákveðið á markaði þeirra, sem hafa gjaldeyri, og hinna, sem vilja gjaldeyri, mundi gífurlega mikið vald, bæði fjárhagslegt og annað, flytjast af ríkiskontórum í Reykjavík til sjávarsíðunnar.

Því miður hefur fólkið í landinu ekki borið gæfu til að skilja muninn á byggðastefnu raunveruleikans og óskhyggjunnar. Það hefur sett fjöregg sitt í hendur góðgjarnra rótara í spilverki sjóðanna. Þessir rótarar lifa á miðstýringu frá Reykjavík og vilja auka hana.

Ekki má gleyma hagsmunum rótaranna. Þeir ganga allir með lítinn ráðherra og bankastjóra í maganum. Stýring og skömmtun er þeirra líf og yndi, auk þess sem hún gefur töluvert í aðra hönd. Sá, sem einu sinni er orðinn rótari, vill efla völd rótara, einkum sjálfs sín.

Hinn nýi milljarðasjóður, sem á að efla velferð fyrirtækja á vegum Sambands íslenzkra samvinnufélaga og annarra slíkra gæludýra, verður í Reykjavík, þar sem miðstýringin og skömmtunin er fyrir. Hann er ný grein á meiði hefðbundinnar byggðastefnu óskhyggjunnar.

Vonandi verður hún leyst af hólmi af raunhæfri byggðastefnu, sem hafnar miðstýringu og veitir í þess stað frelsi frá sjávarútvegskvótum og gengisskráningu.

Jónas Kristjánsson

DV