Fjötruð lyfjavísindi

Punktar

Enn einu sinni hefur verið staðfest, að ekki er unnt að taka mark á niðurstöðum lyfjarannsókna háskólaspítala. Í nýjasta tölublaði New England Journal of Medicine, sem kom út í fyrradag, eru birtar niðurstöður rannsókna á hagsmunatengslum lyfjaframleiðenda við 108 háskólasjúkrahús. Þær sýna, að lyfjafyrirtækin ráða nánast alveg ferðinni í rannsóknum og stjórna í 99% tilvika, hvort niðurstöður eru birtar eða ekki. Markmiðið er að láta okkur trúa, að lyf virki rosalega vel og séu án nokkurra aukaverkana. Áður hafði komið í ljós, að sumir höfundar að skýrslum lásu ekki einu sinni skýrslurnar, sem komu fullbúnar frá lyfjaframleiðendum, heldur skrifuðu bara undir þær. Svo skemmtilega vildi til, að sama dag birtist í ríkissjónvarpinu síðasti þáttur raðar um læknisfræði, sem auðvitað var kostuð af lyfjafyrirtækjum.