Flest má bíða.

Greinar

Kominn er tími til, að ríkisstjórnin átti sig á og sætti sig við, að mest af svokölluðum forgangsmálum hennar nái ekki fram að ganga á Alþingi að þessu sinni. Þau litu of seint dagsins ljós og eru of illa unnin. Nær væri að fá botn í mál, sem of lengi hafa hrakizt um á þingi.

Það er út í hött, að ríkisstjórnin geti kastað fram nokkrum tugum frumvarpa eftir páska og ætlazt til, að þau verði að lögum á sama vori. Nógu mikill hefur æðibunugangurinn verið undir lok hvers þings, þótt ekki verði slegið Íslandsmet í honum að þessu sinni.

Dæmigert er frumvarpið um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Samtök neytenda og verzlunar hafa mótmælt frumvarpinu og þar að auki er kurr í bændum út af því. Þetta er umfangsmikið mál, sem þarf á gætinni skoðun að halda. Fáránlegt væri að berja það í gegn í flýti.

Neytendur og verzlunin óttast, að frumvarpið feli í sér, að þær búgreinar, sem ekki teljast hefðbundnar, verði eins og hinar gerðar að ómögum í þjóðfélaginu, nýjum byrðum á neytendur og skattgreiðendur. Við smíði málsins voru þessir aðilar ekki spurðir ráða.

Annað dæmigert mál eru þríhöfða þursarnir tveir, annars vegar frumvörpin um Framkvæmdasjóð, Byggðastofnun og nafnlausa þróunarfélagið og hins vegar frumvörpin um þrjá sjóði atvinnuveganna. Þetta felur ekki í sér einföldun sjóðakerfisins og losar ekki um þær stíflur, sem beina takmörkuðu fjármagni þjóðarinnar í arðlausa farvegi.

Gott er að sýna mál á borð við bankafrumvörpin. Bezt er þó að gefa mönnum rúmt tækifæri til að glugga í þau í sumarfríinu og endurflytja þau síðan í haust. Engin lífsnauðsyn er á hugsunarlausri afgreiðslu þeirra, frekar en flestra svokallaðra forgangsmála.

Eina síðbúna málið, sem Alþingi ætti að samþykkja, eru tvö frumvörp um ríkisfjármál. Þau fela í sér, að ekki geti endurtekið sig það hneyksli, að hluti fjárlaga, það er að segja lánsfjárlögin, skuli ekki enn hafa tekið gildi, þegar komið er fram í júní.

Lánsfjárlögunum verður Alþingi að loka, áður en það fer í sumarfrí. Þingmenn geta huggað sig við, að þau eru marklítil eins og sjálf fjárlögin. Sem dæmi um það má nefna, að ríkisstjórnin hyggst gleðja ljúflings-atvinnuveginn sinn með 40 milljón króna auka-niðurgreiðslum.

Alþingi hlýtur líka að verða að afgreiða síðkomið frumvarp stjórnarþingmanna um peninga í húsnæðismál. Þetta frumvarp er árangur töluverðs þjarks, þar á meðal við stjórnarandstöðuna, sem telur sig hafa haft jákvæð áhrif. Þetta hefur raunar verið stórpólitíska málið í vor.

Tvö mál hafa velkzt um á Alþingi í allan vetur og eru raunar arfur frá fyrri árum. Það eru bjórinn og útvarpið, sem eru langt komin í síðari deild og bjórinn raunar aftur í hina fyrri. Alþingi verður nú að manna sig upp í að skera úr þessum málum fyrir frí, hvernig sem niðurstaðan verður.

Vandi þessara mála er, að sumir þingmenn þykjast ekki vilja þau feig, en ætla sér að bregða fæti fyrir þau á tæknilegan hátt. Ein leiðin er að breyta þeim í síðari deild, svo að þau verði að fara aftur í fyrri deild og detti upp fyrir í tímahraki síðustu dagana.

Alþingi getur verið ánægt með að hafa náð heildarsamkomulagi um utanríkismál og betri þingsköp. Til viðbótar þarf það að ljúka lögum um útvarp, bjór, húsnæðisfé og ríkisfjármál, svo og lánsfjárlögum. Þetta má gera á nokkrum dögum. Flest önnur mál mega bíða hausts.

Jónas Kristjánsson.

DV